Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 04.03.2020

Er hægt að búa sig undir jarðskjálfta?

Á korti Veðurstofunnar má sjá að flestir jarðskjálftar verða á Reykjanesi og þá í kringum Grindavík. Umrót er og hefur verið á þessu svæði. Þess vegna eru forvarnir á heimilum og vinnustöðum mikilvægar.

Flestir jarðskjálftar hérlendis eru það litlir að enginn verður var við þá nema skjálftamælar. Það er því áhugavert að sjá tíðni þeirra á korti Veðurstofunnar sem uppfært er á fimm mínútna fresti. Þar má sjá að lang flestir skjálftarnir verða á Reykjanesi, þ.e. í kringum Grindavík. Umrót er og hefur verið á þessu svæði. Þess vegna eru forvarnir á heimilum og vinnustöðum mikilvægar. Forvarnir þar sem markmiðið er að minnka líkur á slysum og tjóni.

Hafðu þetta í huga:
  • Að festa skápa og hillur við vegg.
  • Hafðu ekki þunga hluti ofarlega í hillu.
  • Festu sjónvörp við borð eða veggi.
  • Hafðu rúm ekki undir gluggum nema öryggisfilma sé á rúðu.
  • Festu myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur.
  • Settu öryggislæsingar á skápa til að varna því að brothættir hlutir detti út úr þeim.
  • Farðu vel yfir með fjölskyldunni hvar vatnsinntak hússins er og hvernig á að skrúfa fyrir.
  • Hafðu viðlagabúnað eins og sjúkragögn, langbylgju útvarp með rafhlöðum, vasaljós, teppi, vasahníf, merki 112 símanúmersins og aukalykla að bíl, sumarbústað eða öðrum stað sem fjölskyldan hefur aðgang að.
  • Kannaðu hvar næsta fjöldahjálparstöð er.
Farðu vel yfir rétt viðbrögð ef jarðskjálfti verður
  • Gott er að verja sig fyrir slysum með því að krjúpa, skýla og halda í. Gott getur verið að fara í horn á herbergi eða undir borð eða annað sem veitir skjól.
  • Ekki er mælt með því að hlaupa út, sérstaklega ef um einhverja vegalengd þarf að fara, þar sem erfitt er að fóta sig þegar allt er á hreyfingu.
  • Farðu í skó til af verja fætur ef glerbrot eða annað er á gólfum.
  • Skrúfaðu fyrir vatnsinntak ef farið er að leka.
  • Skrúfaðu fyrir gaskútinn ef þú ert með gaseldavél.
  • Kveiktu á útvarpi til að hlusta eftir upplýsingar og tilkynningum.
  • Ef íbúar meta hús óíbúðarhæft skaltu fara út í rólegheitum, taktu með þér það nauðsynlegasta og farðu í næstu fjöldahjálparstöð.
  • Möguleiki er á að símkerfi laskast og álag sé mikið. Því er gott að nota síma eingöngu í neyð.
  • Ef slys er á fólki skaltu hringja í 112.
Hvaða tryggingar taka á jarðskjálftum?
  • Brunatrygging húseigna er skyldutrygging. Allt sem er brunatryggt er sjálfkrafa viðlagatryggt hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands sem þýðir að það er tryggt fyrir tjóni af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.
  • Ekki er skylt samkvæmt lögum að tryggja innbú eða annað lausafé. Mikilvægt er að hver og einn meti sitt innbú og lausamuni og tryggi í samræmi við andvirði þess. Mjög algengt er að andvirði innbús sé vanmetið þegar tryggingar eru teknar. Ef innbú eða lausafé er tryggt hjá tryggingafélagi gildir jafnframt trygging hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, meðal annars gegn tjónum vegna jarðskjálfta. Vátryggingafjárhæðir eru þær sömu og hjá tryggingafélagi þínu en sér reglur gilda um eigin áhættu hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands.