Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 19.11.2020

Borgarbúar, unga fólkið og leigjendur með miklu lakari eldvarnir

Könnun Eldvarnabandalagsins sýnir að alls ekki öll heimili fá ekki fullt hús stiga í eldvörnum og nauðsynlegt að þau geri bragarbót á því.

Reykskynjari og reykur í kring

Eldvarnir á heimilum í Reykjavík eru mun lakari en á heimilum í nágrannasveitarfélögum og þó sérstaklega miðað við heimili utan höfuðborgarsvæðisins, samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið. Fjöldi reykskynjara er að meðaltali 2,8 á heimilum í höfuðborginni en 3,7 á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er mun algengara að enginn eða aðeins einn reykskynjari sé á heimilum í Reykjavík en utan höfuðborgarsvæðisins.

Könnunin leiðir einnig í ljós að eldvörnum er víða ábótavant hjá fólki á aldrinum 25-34 ára, leigjendum og þeim sem búa í stærri fjölbýlishúsum. Í 45 prósent íbúða í leiguhúsnæði er enginn eða aðeins einn reykskynjari og hlutfallið er svipað í fjölbýlishúsum með sex íbúðum eða fleiri. Að meðaltali er þetta hlutfall 28 prósent og allt niður í 20 prósent á heimilum utan höfuðborgarsvæðisins.

Gallup gerði könnunina 30. september til 7. október síðastliðinn. Þátttökuhlutfall var 58,2 prósent. Gallup hefur gert sambærilegar kannanir fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) á tveggja ára fresti síðan 2006. Kannanir Gallup sýna að heimilin auka eldvarnir jafnt og þétt. Aldrei hafa jafn fáir sagst ekki vera með reykskynjara eða um þrjú prósent. Þeim fjölgar jafnt og þétt sem eru með fjóra reykskynjara eða fleiri. Æ fleiri segjast vera með allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.

Eldvarnabandalagið mælir með því að hafa reykskynjara í öllum rýmum, slökkvitæki við helstu flóttaleið og eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsi. Þá er brýnt að allir hafi að minnsta kosti tvær flóttaleiðir úr íbúðinni.

Frávik frá þessu eru sem fyrr segir mjög mikil. Þannig segja aðeins 57 prósent svarenda á aldrinum 25-34 ára að slökkvitæki sé á heimilinu en að meðaltali er slökkvitæki á 75 prósent heimila. Svipaða sögu er að segja af eldvarnateppum. Þau er að finna á aðeins 48 prósent heimila fólks á aldrinum 25-34 ára en 64 prósent að meðaltali. Þá eru slökkvitæki á 66 prósent heimila í Reykjavík en 81 prósent heimila utan höfuðborgarsvæðisins.

Helstu niðurstöður könnunar Gallup eru þessar:

  • Á ríflega helmingi heimila eru allt í senn reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi.
  • Á 28 prósent heimila er enginn eða aðeins einn reykskynjari (38,4 prósent 2006).
  • Heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri hefur á sama tíma fjölgað úr 21,5 prósent árið 2006 í 37,5 prósent nú.
  • Slökkvitæki eru á 75 prósent heimila og hefur þetta hlutfall aldrei mælst hærra.
  • Eldvarnir eru að jafnaði öflugastar hjá þeim sem búa í einbýli en lakastar hjá þeim sem búa í stærri fjölbýlishúsum.

VÍS hefur verið aðili að Eldvarnabandalaginu frá stofnun þess. Undanfarna mánuði hafa verið margar fréttir í fjölmiðlum af brunum á heimilum og núna nálgast sá mánuður þar sem brunar á heimilum eru flestir. Ekki bíða með það til morguns að tryggja að eldvarnir á þínu heimili séu í lagi. Virkur reykskynjari í hverju rými, virkt slökkvitæki við flóttaleið og eldvarnateppi á sýnilegum stað í eldhúsinu. Þessi búnaður ásamt öruggri umgengni við rafmagnstæki, sérstaklega eldavél og kerti geta skipt öllu. Nánari upplýsingar um eldvarnir heimilisins má sjá hér.