Nú þegar vetur konungur er loksins að láta undan og hillir í sumardaginn fyrsta er ekki úr vegi að huga að ástandi dekkjanna sem aka á um í sumar. Samkvæmt könnun sem VÍS gerði á dekkjabúnaði tjónabíla að vetri til, voru rúmlega þriðjungur þeirra á heilsársdekkjum. Því má búast við að margir aki inn í sumarið á þeim dekkjum sem þeir voru á í vetur. Þeir ættu samt sem áður að skoða ástandið á dekkjunum þ.e. slit og mynstursdýpt, hreinsa þau og mæla loftþrýstinginn.

Slitin og léleg dekk auka slysahættu. Þau minnka viðnám bílsins við veginn og því eru meiri líkur á að missa stjórnina á honum. Slitin og léleg dekk lengja líka hemlunarvegalengd, auka líkur á að bíll fljóti upp í bleytu og renni til í beygjum. Við hvetjum alla til að keyra inn í sumarið á góðum dekkjum og minnum á frábæra afslætti, allt að 30%,  sem fyrirtæki bjóða viðskiptavinum okkar.