Enginn hefur látist í umferðinni það sem af er ári og þarf að fara aftur í tímann um 79 ár eða til 1940 til að finna ár þar sem lengra var liðið á árið þegar fyrsta banaslysið varð. 

Nú þegar fyrsta ferðahelgi ársins er framundan er gott að horfa til þessarar staðreyndar og hvetja alla ökumenn til að standa saman um að lengja tímann án banaslysa þetta árið. Veðurspáin er hin þokkalegasta svo slæm færð ætti ekki að hafa áhrif en þó eru dæmi um það að gott veður geri það að verkum að einhverjir freistist til að keyra of hratt og slysin verða alvarlegri eftir því sem ökuhraðinn eykst.

Við hvetjum alla til aka í samræmi við lög og aðstæður. Huga að örygginu, nota réttan öryggisbúnað og taka fullt tillit til annarra vegfarenda á ferðum sínum um páskana.

Ágúst Mogensen, sérfræðingur VÍS í forvörnum, mætti í viðtal hjá Stöð 2 til að ræða þessi máli.