Hoppa yfir valmynd

VÍS appið · Notkunarskilmálar

1. - Samþykki skilmála

1.1. - VÍS appið (smáforritið) er smáforrit í boði Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) sem veitir viðskiptavinum VÍS (notandi) yfirsýn yfir þær tryggingar sem þeir eru með, gerir þeim mögulegt að tilkynna tjón með einföldum hætti og hafa yfirsýn yfir stöðu þeirra tjóna sem þegar hafa verið tilkynnt, býður upp á forvarnafræðslu (Látum öryggið passa) auk þess að upplýsa um kjör og fríðindi sem tengjast VÍSvild, vildarkerfi VÍS. Innskráning í smáforritið fer fram með rafrænum skilríkjum í farsíma.

1.2. - Um smáforritið gilda skilmálar þessir, almennur skilmáli og skilmálar þeirra trygginga sem viðskiptavinur VÍS er með í gildi. Notandi skal kynna sér þessa skilmála.

1.3. - VÍS notar appið til að koma á framfæri upplýsingum vegna viðskipta notandans við VÍS, þ.á.m. upplýsingum sem lúta að markaðssetningu, forvörnum og tryggingarvernd.

1.4. - VÍS vistar upplýsingar um það tæki sem VÍS appið er notað á, þ.e. nafn, númer, tegund, stýrikerfi o.fl. Upplýsingar af þessu tagi notar VÍS til að senda skilaboð (e. notification) á tækið í gegnum dreifikerfi Apple eða Google eftir því sem við á. Öll samskipti frá tæki til VÍS eru dulkóðuð.

1.5. - Forsenda þess að unnt er að veita og framkvæma samning um vildarkerfi VÍS er að ákvarðanir vátryggingartaka um vildarkjör séu teknar með sjálfvirkri ákvarðanatöku, m.a. með gerð persónusniðs. Sjálfvirk ákvarðanataka um aðgang að vildarkerfi VÍS byggir á upplýsingum um möguleg vanskil og sjálfvirk ákvarðanataka um vildarþrep vátryggingartaka byggir á upplýsingum um fjölda trygginga, viðskiptalengd og fjölda tjóna. Sé vátryggingartaki í hjónabandi eða skráðri sambúð þá byggir niðurstaða um vildarþrep á samanlögðum fjölda trygginga, viðskiptalengd m.v. viðskiptalengd þess aðila sem hefur verið lengur í viðskiptum hjá VÍS og samanlögðum fjölda tjóna. Vátryggingataki getur ávallt óskað eftir frekari upplýsingum um niðurstöðu sjálfvirkrar ákvarðanatöku, mótmælt henni eða fengið starfsmann VÍS til að yfirfara eða endurmeta hana með því að hafa samband í gegnum vis@vis.is eða í síma 560 5000.

1.6. - Notandi ber fulla og ótakmarkaða ábyrgð á þeim aðgerðum sem hann framkvæmir í smáforritinu.

2. - Upplýsingar um þjónustuveitanda og ábyrgðaraðila persónuupplýsinga

2.1. - Þjónustuveitandi og ábyrgðaraðili á vinnslu persónuupplýsinga er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, 108 Reykjavík, sími 560 5000, www.vis.is. VÍS hefur starfsleyfi sem vátryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í samræmi við lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

3. - Persónuvernd

3.1. - VÍS leggur ríka áherslu á öryggi við vinnslu persónuupplýsinga. Til að hægt sé að veita þá þjónustu sem er í boði í VÍS appinu er nauðsynlegt að vinna með ýmiss konar persónuupplýsingar. VÍS tryggir að öll vinnsla persónuupplýsinga sem varða notanda sé eins vönduð og kostur er og fari fram í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglum settum samkvæmt þeim. Í reglum um vinnslu persónuupplýsinga á heimasíðu VÍS, vis.is, er að finna nánari upplýsingar um vinnsluna, þ.á m. um það hvaða persónuupplýsingum VÍS safnar, í hvaða tilgangi og á grundvelli hvaða heimilda, hversu lengi upplýsingarnar eru varðveittar og hvaða réttindi viðskiptavinir hafa varðandi vinnslu VÍS á slíkum upplýsingum.

4. - Öryggi

4.1. - Öll gögn sem vistast í VÍS appinu (símtæki notenda) og öll samskipti frá símtæki til VÍS eru dulkóðuð.

4.2. - Til að auka öryggi við notkun smáforritsins skal gæta að eftirfarandi atriðum þegar smáforritið er sótt og sett upp í snjalltæki:

  • Sækja smáforritið eingöngu frá Apple í App Store eða frá Google í Play Store.
  • Setja smáforritið ekki upp í snjalltæki með breyttu stýrikerfi, sem hefur verið breytt með t.d. svokölluðu „jailbreak“ eða öðrum sambærilegum breytingum.
  • Setja forritið eingöngu og aðeins upp á snjalltæki sem eru í eigu eða löglegri umsjá notanda.
  • Hvorki gera né láta gera breytingar á smáforritinu eða tengdum hugbúnaði.
  • Nota ekki smáforritið til að geyma eða dreifa ólögmætu, skaðlegu eða meiðandi efni eða efni í eigu þriðja aðila.
  • Nota smáforritið ekki til að reyna að verða á ólögmætan hátt úti um aðgang að gögnum eða hugbúnaði annarra, ónýta þau eða skjóta undan.
  • Eiga ekki við né trufla virkni þjónustu, API eða vélbúnaðar.

4.3. - Hafi framangreinds ekki verið gætt eða átt hefur verið við snjalltækið með þeim hætti að öryggi þess hafi á einhvern hátt verið ógnað, svo sem með uppsetningu á vafasömu forriti er notkun smáforritsins ekki örugg og því óheimil.

5. - Skyldur og ábyrgð notanda

5.1. - Notandi ber ábyrgð á því að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja öryggisþætti sem notaðir eru til auðkenningar inn í smáforritið og snjalltækið.

5.2. - Notandi ber ábyrgð á því að varðveita allt sem snertir öryggisþætti með tryggum hætti og því að aðgangsupplýsingar berist ekki í hendur óviðkomandi aðila eða séu aðgengilegar öðrum. Ekki má undir neinum kringumstæðum deila upplýsingum um persónubundna öryggisþætti, t.d. pin númeri og rafrænum skilríkjum, með öðrum.

5.3. - Ef notandi hefur ástæðu til að ætla að óviðkomandi hafi komist yfir upplýsingar þeirra ber að láta VÍS vita eins fljótt og hægt er.

5.4. - Til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem eru í smáforritinu mælir VÍS með að virkja læsingar í snjalltækinu og nota og uppfæra snjalltækið í samræmi við öryggisleiðbeiningar frá framleiðanda.

5.5. - Notandi sem notast við snjalltæki með Android stýrikerfi skulu nota pin númer, fingrafara- eða andlitsskanna við innskráningu inn í snjalltækið.

5.6. - Notkun persónubundinna öryggisþátta jafngildir ávallt undirskrift. Séu persónubundnir öryggisþættir ekki varðveittir í samræmi við framangreint telst það vera stórfellt gáleysi.

5.7. - Ef snjalltækið, sem smáforritið hefur verið sótt í, er selt eða öðrum heimiluð umráð þess, skal fjarlægja smáforritið áður úr snjalltækinu.

5.8. - Öll notkun notanda á smáforritinu takmarkast við aðgerðir sem eru eðlilegar og löglegar á hverjum tíma. Með því að taka smáforritið í notkun skuldbindur notandi sig til að nýta smáforritið eingöngu í lögmætum tilgangi og að allar upplýsingar sem hann veitir VÍS í gegnum smáforritið séu réttar og í samræmi við bestu vitund.

6. - Heimildir, fyrirvarar og takmörkun á ábyrgð VÍS

6.1. - Óheimilt er að breyta smáforritinu eða afrita. VÍS eða þriðji aðili er eigandi höfundaréttar, vörumerkja og annarra óefnislegra réttinda sem tengjast smáforritinu.

6.2. - VÍS ber ekki ábyrgð á notkun á smáforritinu eða á tjóni sem notkun smáforritsins kann að valda.

6.3. - VÍS getur ekki ábyrgst samfelldan og órofinn aðgang að smáforritinu. Smáforritið er almennt í boði 24 tíma á dag 7 daga vikunnar. Hins vegar er möguleiki á að aðgangur að smáforritinu eða aðgangur smáforritsins að kerfum VÍS eða þjónustuaðila rofni tímabundið vegna uppfærslu, viðhalds, þjónustuhlés, truflunar eða af öðrum svipuðum ástæðum.

6.4. - VÍS mun eins og kostur er tilkynna um þjónusturof með fyrirvara á heimasíðu sinni. VÍS er þó ekki skylt að tilkynna fyrir fram um truflanir á þjónustu sem er til skamms tíma og er minni háttar eða sem stafar af öryggisbresti eða öðrum óvæntum eða óviðráðanlegum ástæðum.

6.5. - Ef notandi brýtur gegn skilmálum þessum eða öðrum skilmálum sem hafa verið samþykktir er VÍS heimilt að loka fyrir aðgang að smáforritinu. Hið sama á við ef notandi verður uppvís að misnotkun eða tilraun til misnotkunar á upplýsingum sem eru aðgengilegar í smáforritinu eða kerfinu sjálfu.

7. - Tilkynningar, breytingar og gildistaka

7.1. - VÍS áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum einhliða. VÍS getur birt tilkynningar um breytingar á skilmálum í almennum tilkynningum í smáforritinu, á heimasíðu VÍS, og/eða í gegnum tölvupóst eða önnur rafræn skilaboð.

7.2. - VÍS er heimilt að bæta við eða breyta skilmálum hvenær sem er og taka þær breytingar gildi án fyrirvara ef þær eru til hagsbóta fyrir tryggingataka og/eða notendur. Séu breytingar ekki til hagsbóta fyrir tryggingartaka og/eða notendur taka þær gildi með mánaðar fyrirvara.

7.3. - Sætti tryggingartaki og/eða notendur sig ekki við breytingu á skilmálum þessum geta þeir sagt upp viðskiptum sínum við VÍS.

7.4. - Skilmálar þessir eru staðlaðir og verður ekki breytt af hálfu tryggingartaka og/eða notenda. Áritanir, útstrikanir, viðbætur og annars konar breytingar sem gerðar eru á þeim hafa ekki gildi gagnvart félaginu.

Skilmálar þessir taka gildi 1. september 2022.