Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 04.07.2025

Er brunabótamatið rétt?

Ef húseign verður fyrir tjóni vegna bruna eða náttúruhamfara er tjónið gert upp samkvæmt gildandi brunabótamati.

Það sama gildir í vatnstjóni, sem er bætt úr húseigendatrygginu, þar er tjón gert upp miðað við gildandi brunabótamat.

Það er því mikilvægt að matið sýni efnislegt virði eignar á hverjum tíma en fyrsta brunabótamat er gert þegar eign er tekin í notkun eða skráð fullgerð. Það er síðan endurreiknað 1. júní ár hvert út frá kostnaðarverði efnis- og vinnuliða og uppfærist þess á milli mánaðarlega út frá byggingarvísitölu.

Á nýlegum fundi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um bætta framkvæmd brunabótamats kom fram að fjöldi fasteigna á Íslandi eru vantryggðar komi til tjóns sökum of lágs brunabótamats. Einnig kom fram að almennt virðast húseigendur ekki nægilega upplýstir um að þeir þurfa sjálfir að óska eftir endurmati á brunabótamati telji þeir að matið endurspegli ekki virði eignar sinnar.

Hvað er brunabótamat

  • Brunabótamat á að endurspegla hvað það kostar að endurbyggja tiltekið hús eftir altjón þannig að það verði sambærilegt því sem það var áður.
  • Brunabótamat og fasteignamat er ekki það sama og upphæð brunabótamats hefur ekki áhrif á fasteignagjöld.

Hvenær ætti að óska eftir endurmati á brunabótamati?

  • Ef farið er í framkvæmdir eins og að skipta út innréttingum t.d. í baðherbergi og eldhúsi.
  • Ef skipt er um einangrun, klæðningu eða gólfefni.
  • Ef bætt er við skjólveggjum, palli eða heitum potti.

Hvernig er óskað eftir endurmati á brunabótamati?

Umsókninni þarf að fylgja:

  • Greinargóð lýsing á endurbótum eða viðbyggingu, efni sem var notað og hvaða ár framkvæmdirnar voru gerðar.
  • Lýsing á öllu sem er nýrra en byggingarár, eða það ár sem er vitað að brunabótamat hafi verið endurmetið.
  • Skýrar ljósmyndir af öllu sem tekið er fram í lýsingunni.

Hefur endurmat til hækkunar á brunabótamati áhrif á lögboðnu brunatrygginguna mína? 

  • Já, ef til tjóns kemur þá verður tjónið gert upp miðað við nýtt brunabótamat.
  • Já, verð tryggingarinnar og opinber gjöld sem eru innheimt samhliða henni hækka. Gera má ráð fyrir að hækkunin nemi um kr. 1.200 á ári fyrir hverja milljón sem brunabótamatið hækkar. Þar af er brunatryggingin rúmlega þriðjungur en annað er opinber gjöld s.s. náttúruhamfaragjald, forvarnagjald og ofanflóðasjóður.