„Við ætlum að fækka bílslysum á Íslandi”
Nú er hægt að tryggja sér byltingarkennda nýjung á hér landi. Ökuvísir er nýr valkostur í ökutækjatryggingum þar sem hægt er að fá aðgang að appi sem veitir uppbyggilega endurgjöf um hvað megi gera betur í umferðinni.
Með virkri endurgjöf hjálpum við viðskiptavinum félagsins að keyra betur og stuðlum að fækkun umferðarslysa. Því betur og minna sem viðskiptavinir félagsins keyra því minna borga þeir. Þannig stjórna þeir ferðinni, í orðsins fyllstu merkingu.
Einfaldari verðskrá
Í fyrsta skipti á Íslandi hafa einungis tveir þættir áhrif á iðgjöldin, þ.e. aksturseinkunn og eknir kílómetrar. Þetta er því mun einfaldari verðskrá en hefðbundin verðskrá fyrir ökutækjatryggingu. Því þar hefur aldur tryggingataka, áhættusvæði, þyngd bílsins, hestöfl, vélarstærð og litur hans sem og orkugjafi áhrif á hvað hver og einn borgar fyrir lögbundna ökutækjatryggingu. Verðskráin er því einfaldari og gagnsærri en hún hefur nokkurn tímann verið. Hægt er að prófa í tvær vikur hvort appið henti. Ef Ökuvísir hentar ekki, þá er auðvelt að velja hefðbundnari tryggingaleið. Viðskiptavinir okkar hafa valið.
Upplýst samþykki viðskiptavina
Ökumaðurinn fær virka endurgjöf á aksturinn eftir hverja einustu ferð. Appið safnar eingöngu upplýsingum til þess að veita mikilvæga endurgjöf á aksturinn. Það safnar engum persónuupplýsingum sem eru ekki nauðsynlegar til þess að veita endurgjöf. Það er skýrt að persónuupplýsingar viðskiptavina verða ekki notaðar í neitt annað en að veita þjónustu sem tengist Ökuvísi. Vinnsla persónuupplýsinga í Ökuvísi byggir á upplýstu samþykki viðskiptavina, staðsetningargögn eru geymd í farsíma viðskiptavina og tryggt er að engir starfsmenn hafi aðgang að persónugreinanlegum staðsetningargögnum viðskiptavina. Við þróun á Ökuvísi hefur verið stuðst við ráðgjöf frá sérfræðingum í persónuvernd og upplýsingaöryggi. Innbyggð og sjálfgefin persónuvernd var tryggð frá upphafi í þróun á Ökuvísi sem þýðir að hugað var að persónuvernd í allri vinnslu og hönnun, s.s. forritun og þjónustu.
Virk endurgjöf er lykillinn
Því betur og minna sem viðskiptavinir okkar keyra, því minna borga þeir fyrir trygginguna. Aksturseinkunn ákvarðar það sem þeir borga. Hún byggir á fimm þáttum; hraða, hröðun, beygjum, hemlun og símanotkun. Þess ber að geta að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur að farsímanotkun sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa á heimsvísu. Hún bitnar á skynjun ökumanna á umhverfinu og viðbragðstíma, t.d. að hemla eða beygja frá hættu. Í nýlegri könnun sem Zenter framkvæmdi fyrir VÍS kemur fram að um helmingur ökumanna notar farsímann undir stýri. Ef ökumaður kíkir á símann í fimm sekúndur er hann búinn að keyra vegalengd sem jafngildir því að keyra Laugardalsvöll endilangan, ef við gefum okkur akstur á 90 km hraða.
Á bak við tölur er fólk
Árið 1919 varð fyrsta bílslysið á Íslandi. Um 1.585 manns hafa látist í bílslysum hér á landi og um 150-200 manns slasast alvarlega í bílslysum á hverju einasta ári. Þetta þýðir að um 10.000 - 12.000 manns hafa slasast alvarlega í umferðinni. Þessu viljum við breyta.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir að markmiðið með Ökuvísi sé skýrt. „Í upphafi faraldursins fóru tryggingafélög víða um heim að endurgreiða ökutækjatryggingar í ljósi þess að umferð minnkaði verulega og þar með voru færri umferðaróhöpp. Þetta ýtti við okkur að hugsa hlutina upp á nýtt ─ og þá með sjálfbærum hætti. Hvernig væri hægt að hvetja viðskiptavini okkar til öruggara aksturslags og fækka bílslysum á sama tíma? Og ef viðskiptavinir okkar keyrðu minna ─ hvernig væri hægt að umbuna fyrir það? Við vildum hugsa hlutina til lengri tíma, þannig viðskiptavinir okkar gætu sjálfir haft áhrif á það sem þeir borga fyrir ökutækjatryggingu. Afraksturinn er Ökuvísir. Markmiðið er skýrt ─ að fækka umferðarslysum hér á landi.
Hann er jafnframt stoltur af því frumkvöðlastarfi sem hefur átt sér stað hjá félaginu við hönnun og þróun á Ökuvísi. „Við ætlum okkur að breyta því hvernig tryggingar virka og þetta er fyrsta skrefið í þá átt. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað, viljum við koma í veg fyrir þau. Þess ber að geta að sjálfbærni er mikilvægt leiðarljós hjá félaginu. Við styðjum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og sérstaklega heimsmarkmið þrjú, en þar beinum við spjótum okkar að forvörnum. Undirmarkmið 3.6 fjallar um að fækka banaslysum í umferðinni. Við trúum því að okkur takist það í góðri samvinnu við viðskiptavini okkar. Við ætlum að fækka bílslysum á Íslandi“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.