Lífið eftir makamissi
Rafræna námskeiðið Lífið eftir makamissir er öflugt bjargráð sem gott er að leita til í sorg.

Í mikilli vanlíðan segir Anna, sem er annar höfundur námskeiðsins, að fólk taki ekki endilega mikið frumkvæði. Þess vegna er mikilvægt að vinir, ættingjar og vinnustaðir bendi fólki á úrræði sem til eru eins og námskeiðið Lífið eftir makamissi. Margir eru í vanlíðan í langan tíma, reyna að láta eins og hún sé ekki þarna þegar þeir hitta aðra en finna svo sterkt fyrir henni í einrúmi. Fólk vill bara bíða vanlíðanina af sér, vona að hún lagist bara, hverfi af sjálfu sér.
Missir maka er einn erfiðasti atburður sem fólk upplifir á lífsleiðinni. Það að missa ástvin og maka er mikið áfall sem hefur áhrif á daglegt líf, framtíðarsýn og sjálfsmynd fólks. Margir finna fyrir óöryggi og einmanaleika og eiga erfitt með að sjá lífið fyrir sér þegar aðstæður eru svo breyttar.
Rafræna námskeiðið Lífið eftir makamissi veitir einstaklingum í þeim sporum stuðning og fræðslu sem hjálpar til við úrvinnslu sorgar og að ná sálrænni endurheimt. Við hjá VÍS erum stolt af því að hafa styrkt gerð námskeiðsins og bjóðum viðskiptavinum okkar afslátt af námskeiðinu í gegnum VÍS appið.
Höfundar námskeiðsins þær Guðfinna Eydal, sálfræðingur og Anna Ingólfsdóttir, rithöfundur og jógakennari hafa báðar misst maka en Anna var 35 ára með þrjú lítil börn og Guðfinna var rúmlega sextug. Áður skrifuðu þær bókina Makamissir.
Námskeið sem hægt er að heimsækja aftur og aftur
Námskeiðið Lífið eftir makamissi er nýtt úrræði hugsað fyrir þá sem eru að leita eftir stuðningi og fræðslu eftir makamissi. Það sé eingöngu rafrænt og hægt að tengjast því í gegnum síma eða tölvu. Það tekur um 4,5 klst og innihaldi fræðslu, hugleiðslur, bjargráð, öndunaræfingar og slökun. Fólk greiðir fyrir aðgang sem gildir í eitt ár og getur farið eins oft í gegnum efnið og hentar, í öruggu rými, heima í stofu, grátið eins og það vill í friði. Námskeiðið er gagnvirkt á þann hátt að innifalið í gjaldinu er eitt stuðningsviðtal sem fer fram í gegnum Zoom eða Teams og hægt er að fá fleiri viðtöl ef óskað er eftir því.
Af hverju þetta námskeið?
,,Almennt tölum við ekki mikið um dauðann. Dauðinn er ekki umræðuefni nema þegar hann birtist. Allt í einu er manneskja sem ætlaði að vera að gera skemmtilega hluti með maka sínum orðin ein og öll lífsins plön breytt. Makinn kemur ekki til baka, hversu heitt sem þess er óskað og bjargráð vegna fyrri áfalla duga kannski ekki núna, “ segir Anna.
Í staðinn fyrir að syrgjandi þurfi að uppgötva allt í kringum sorg og afleiðingar hennar, á löngum tíma, bjóðum við á þessu námskeiði, stuðning í formi fræðslu, þekkingar og skilnings á því hvað í raun gerist í manneskju þegar hún missir maka sinn og við upplýsum um hvað í sorginni felst. Þannig má segja að námskeiðið geti opnað mörgum veröld sem þau þekktu ekki áður. Sorg og þjáning henni tengd er sammannleg. Í sorg kemst fólk í meiri nánd við sjálft sig. Sorg neyðir manneskjuna til þess að horfa inn á við.
Hvernig hjálpar námskeiðið?
Anna segir efni námskeiðsins geti skýrt línur, útskýrt og fært fólki skilning á eigin líðan og viðbrögðum. Fari fólk nokkrum sinnum í gegnum efnið, noti hugleiðslurnar og velti fyrir sér bjargráðum sem í verkefnunum liggja og eru í lok námskeiðs, ætti fólk að finna á þessu tólf mánaða tímabili hvernig skilningur þess hefur aukist, hvernig það hefur meðtekið fræðslu og aukið við þekkingu sína. Auknum skilningi geta fylgt hvati og vilji til að halda áfram, gera breytingar og skoða farinn veg; skoða hver var ég sem manneskja áður en ég kynntist maka mínum, hver vorum við sem par og hver er ég nú í þessum nýju aðstæðum. ,,Við makamissi vakna alls konar hugrenningar tengdar gömlum minningum og áföllum. Það getur verið áhugavert að skoða það og í bjargráðunum er til dæmis verkefni sem hvetur fólk til þess að fara yfir lífsferilinn sinn með tilliti til fyrri áfalla og stórra viðburða í lífi sínu. Við leggjum líka áherslu á að halda í vonina, þennan djúpa kraft sem í okkur býr og skiptir svo miklu máli.“
,,Auðvitað hefur tíminn mildandi áhrif á vanlíðan í sorg en það að leita leiða og lausna, afla sér fræðslu og þekkingar, takast á við úrvinnslu sorgar, markvisst og með stuðningi gefur óneitanlega von um að fólk festist ekki í viðvarandi sorg, heldur nái að tengjast sjálfu sér á dýpri hátt um leið og það öðlast sálræna endurheimt, “ segir Anna að lokum.
Við hjá VÍS hvetjum einstaklinga í þessum sporum til að kynna sér þau bjargráð sem námskeiðið Lífið eftir makamissi getur gefið.