Níu af hverjum tíu með hjálm
Á dögunum gerði VÍS könnun á hjálmanotkun 407 hjólreiðamanna sem voru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu að morgni dags. Níu af hverjum 10 voru með hjálm sem verður að teljast nokkuð gott hlutfall.
Á dögunum gerði VÍS könnun á hjálmanotkun 407 hjólreiðamanna sem voru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu að morgni dags. Níu af hverjum 10 voru með hjálm sem verður að teljast nokkuð gott hlutfall. Þetta var áttunda árið í röð þar sem könnun sem þessi hefur verið gerð á sama tíma og Hjólað í vinnuna verkefnið stendur yfir. Fyrsta árið voru 74% með hjálm þannig að hlutfall þeirra sem nota hjálm hefur aukist frá þeim tíma þó svo það hafi staðið nokkuð í stað síðustu fimm árin.
Alvarlegustu, en ekki algengustu, hjólreiðaslysin verða þar sem bíll og hjól lenda saman. Algengustu slysin eru þegar hjólreiðamaður dettur án þess að annar vegfarandi komi við sögu. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni má rekja 75% banaslysa hjólreiðamanna til höfuðáverka. Rannsóknir sýna jafnframt að hjálmur minnkar líkur á alvarlegum höfuðáverkum um allt að 79% og samkvæmt rannsókn sem var gerð á LSH voru höfuðmeiðsl algengust hjá þeim sem slösuðust alvarlegast eða 28%.
Hjólreiðar eru frábær ferðamáti sem stuðlar að bættri lýðheilsu. Öruggustu aðstæður þessa hóps eru þar sem mismunandi hópar vegfarenda eru aðskildir og stígar vel sópaðir. Það er ánægjulegt að sjá hversu stór hluti þeirra sem nýta sér hjólið sem ferðamáta velur það að nota hjálm og klæðist skærlitum fatnaði til að auka sýnileika sinn en þriðjungur gerði það í þessari könnun.
Sumarið er sá tími þar sem flestir slasast á hjólum. Núna í maí voru 13 hjólreiðaslys þar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til og til LSP leita nærri 600 manns á ári vegna hjólreiðaslysa. Mikilvægi þess að fara með gát, tryggja að hjólið sé í lagi og nota öryggisbúnað verður því seint of oft ítrekað.