Gott að vita um reykskynjara
Reykskynjarar gegna mikilvægu hlutverki á heimilunum, ekki síst á nóttunni þegar mestar líkur eru á manntjóni í bruna. Ekkert heimili ætti að vera án reykskynjara, en tölur sýna að 4% heimila eru ekki með reykskynjara. Þetta eru helst ungt fólk í leiguhúsnæði.
Mikil tækniþróun hefur orðið í reykskynjurum síðustu ár. Eins eru margir þeirra bara orðnir ansi smartir. Skynjarar geta verið partur af snjallheimili og skynjað meira en bara eld og reyk.
Viltu vita meira?
Hvað ber að hafa í huga
- Reykskynjari verður að vera að lágmarki á hverri hæð og framan við eða í hverri svefnálmu.
- Allt heimilisfólk ætti að þekkja hljóðið í skynjurunum.
- Best er að skynjarar séu í öllum rýmum sér í lagi þar sem rafmagnstæki eru.
- Skynjara á að staðsetja sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nemur 30 sm.
- Líftími reykskynjara er um tíu ár.
- Reykskynjara þarf að prófa á hverju ári.
- Endingartími rafhlöðu í reykskynjurum er mismunandi eftir gerð skynjara
- 9 volta rafhlöðu þarf að skipta um árlega.
- Rafhlaða sem dugir í 5 ár.
- Rafhlaða sem dugir í 10 ár en að þeim tíma liðnum er reykskynjarinn endurnýjaður.
- Ef stutt hljóðmerki heyrist frá skynjara á um það bil mínútu fresti er það merki um að rafhlaðan sé að verða búin. Sumir skynjarar gefa einnig boð um það í síma eða til vöktunarfyrirtækis.