Hoppa yfir valmynd

Sagan

Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) á djúpar rætur í íslensku samfélagi. Félagið býður víðtæka vátryggingaþjónustu þar sem rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf, skilvirkni, sveigjanleika og góða þjónustu.

Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga. Áhersla er á eignatryggingar, sjó- og farmtryggingar, lögboðnar ökutækjatryggingar, frjálsar ökutækjatryggingar, ábyrgðartryggingar, slysatryggingar og erlendar endurtryggingar. Auk þess á félagið og rekur líftryggingafélagið Lífís sem býður upp á persónutryggingar á borð við líf- og sjúkdómatryggingar.

Mynd tekin árið 1972 af höfuðstöðvum VÍS í Ármúla 3

Stofnun félagsins

Vátryggingafélag Íslands hf, VÍS, var stofnað formlega 5. febrúar árið 1989 við sameiningu Samvinnutrygginga og Brunabótafélags Íslands sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1917. Brunabótafélag Íslands (síðar Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands) var stofnað til að annast brunatryggingar samkvæmt lögum um brunatryggingar á Íslandi. Samvinnutryggingar gt. (gagnkvæmt tryggingafélag) voru stofnaðar 1946 fyrir forgöngu Sambands íslenskra samvinnufélaga. Við stofnun VÍS var meginhluti vátryggingastofna Brunabótafélagsins og Samvinnutrygginga færður til nýja félagsins sem tók yfir mest allan rekstur stofnfélaga sinna árið 1989 og hóf rekstur alhliða vátryggingastarfsemi. Viðskiptavinir VÍS voru frá upphafi einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir.

Brunabótafélag Íslands

Brunabótafélag Íslands var sett á laggirnar með lögum frá Alþingi í því skyni að færa brunatryggingar fasteigna inn í landið og tryggja að öll hús hér væru brunatryggð. Með samningum við sveitarfélög tók félagið að sér brunatryggingar húsa utan Reykjavíkur og hélst sú skipan fram til 1954. Fljótlega eftir það hóf Brunabótafélagið einnig sölu annarra vátrygginga og stundaði alhliða vátryggingastarfsemi til 1989 er meginhluti vátryggingastofna þess var fluttur til VÍS.

Mynd frá starfsemi Brunabótafélags Íslands frá 1971

Samvinnutryggingar gt.

Samvinnutryggingar gt. voru stofnaðar 1. september 1946 að frumkvæði Sambands íslenskra samvinnufélaga og kaupfélaganna í landinu. Fyrirmynd að félaginu var sótt til Svíþjóðar en þar og víða um heim hafði þetta félagsform, gagnkvæmt tryggingafélag, verið notað með góðum árangri.

Viðskiptavinir Samvinnutrygginga voru allt frá stofnun öll kaupfélög í landinu, annar samvinnurekstur sem og mikill fjöldi einstaklinga um land allt. Félaginu óx þannig fljótt ásmegin og varð á nokkrum árum stærsta íslenska vátryggingafélagið með hliðsjón af iðgjöldum. Þegar einkaréttur Brunabótafélags Íslands á brunatryggingum húsa utan Reykjavíkur var afnuminn með lögum frá Alþingi árið 1954 tóku Samvinnutryggingar gt. að sér brunatryggingar húsa. Samið var við allmörg sveitarfélög auk þess sem félagið beitti sér, allt frá stofnun, mjög fyrir nýjungum í vöruúrvali einkum fyrir einstaklinga. Árið 1949 keypti félagið líftryggingastofn hinnar norsku Andvake sem hér hafði starfað mjög lengi og stofnað var nýtt félag, Líftryggingafélagið Andvaka gt. um þann rekstur.

Mynd frá starfsemi Samvinnutrygginga frá 1971