Svefn og hvíld
Reglulegur svefn og hvíld er okkur lífsnauðsynleg. Þótt hægt sé að stofna til skammtímaskuldar í þessum efnum gengur það ekki til lengdar. Athyglin skerðist, lífsgæði versna, þolinmæði minnkar, slysahætta eykst og andleg líðan versnar svo eitthvað sé nefnt. En fólk þarf mismikinn svefn. Börn á grunnskólaaldri þurfa alla jafna átta til ellefu tíma svefn en fullorðnir sjö til níu klukkustundir og styttist gjarnan eftir því sem fólk eldist.
Svefninn getur verið misgóður og veltur m.a. á hugarástandi okkar. Hann skiptist í nokkur stig og á nóttunni flökkum við á milli þeirra. Svefninn er misdjúpur á hverju stigi og mismunandi hvort okkur dreymir, hversu djúpt við öndum, hversu mikil vöðvaspennan er og hversu auðvelt er að vekja okkur.