Húsfélög og tryggingar
Mikilvægt er að eigendur íbúða í fjölbýlishúsum og forsvarsmenn húsfélaga séu meðvitaðir um þá tryggingavernd sem er til staðar.
Algengt er að húsfélög sjái um kaup á sameiginlegri húseigendatryggingu fyrir íbúðir hússins. Einnig hafa húsfélög keypt lausafjártryggingu eða víðtæka eignatryggingu fyrir muni sem eru í eigu húsfélagsins.
- Öllum eigendum fasteigna ber að tryggja fasteignir sínar gegn eldsvoða með lögboðinni brunatryggingu.
- Við mælum einnig með húseigendatryggingu og í fjölbýlishúsum er algengt að húsfélög sjái um að kaupa sameiginlega húseigendatryggingu fyrir allar íbúðir hússins.
- Kostir þess að kaupa sameiginlega tryggingu eru annars vegar hagstæðara verð og hins vegar að eigendur lenda síður í ágreiningi ef til tjóns kemur. Ákvörðun um kaup á húseigendatryggingu er tekin á löglegum húsfundi og skuldbindur hún eigendur til þátttöku.
- Húseigendatrygging bætir meðal annars tjón sem verður á fasteign vegna vatnsleka frá lögnum, tjón vegna innbrots eða innbrotstilraunar og tjón vegna óveðurs. Þá tekur tryggingin einnig á því ef rúður, helluborð, borðplötur og hreinlætistæki brotna vegna óvæntra og skyndilegra óhappa.
- Húseigendatryggingin tekur ekki á tjónum sem verða á innbúi eða lausamunum sem eru í fasteigninni. Innbú og aðra lausamuni þarf að tryggja með heimilistryggingu eða lausafjártryggingu.