Fjallasport og fjallgöngur
Hvort sem þú stundar sérhæft fjallasport eða fjallgöngur þér til ánægju og heilsubótar, viljum við að þú sért með þá tryggingavernd sem þú þarft. Almennt fellur slys á fólki undir frítímaslysatryggingu og tjón á búnaði undir innbústryggingu og innbúskaskótryggingu.
Í spurningasafninu okkar finnur þú svör við mörgum algengum spurningum. Hafðu samband eða kíktu í heimsókn ef þú hefur einhverjar spurningar — við aðstoðum þig með ánægju.
Tryggingar
- Heimilistrygging inniheldur frítímaslysatryggingu en hún bætir líkamstjón vegna slysa sem verða í frístundum og við ástundun almenningsíþrótta.
- Slys sem verða í bjargsigi, klettaklifri, fjallaklifri og ísklifri eru undanskilin í frítímaslysatryggingu og sama á við um slys sem verða í fjallgöngu af hvaða tegund sem er yfir 4.000 metra hæð frá sjávarmáli. Hægt er að kaupa slysatryggingu eða verndina íþrótta- og tómstundaáhættu fyrir þau sem vilja tryggja sig vel við slíka ástundun, innanlands og erlendis.
- Heimilistrygging inniheldur ábyrgðartryggingu. Ábyrgðartrygging bætir líkams- og munatjón sem þú veldur þriðja aðila vegna skaðabótaábyrgðar sem getur fallið á þig samkvæmt íslenskum skaðabótalögum.
- Ef þú ætlar að stunda fjallasport eða fjallgöngur erlendis þá mælum við með ferðatryggingu.
- Heimilistrygging inniheldur innbústryggingu. Innbústrygging tryggir útivistarbúnað fyrir bruna, þjófnaði og vatnstjóni.
- Ef heimilistryggingin þín inniheldur innbúskaskótryggingu, sem er valkvæð trygging, er útivistarbúnaðurinn líka tryggður fyrir tjóni af völdum skyndilegra og ófyrirsjáanlegra utanaðkomandi atvika.
- Ef þú átt sérstaklega verðmætan útivistarbúnað þar sem verðmæti fer yfir bótafjárhæðir í innbúskaskó þá er best fyrir þig að hafa samband og við skoðum málið saman.
Gott að vita
- Í tryggingum er búnaður sem notaður er í fjallgöngum og fjallasporti almennt skilgreindur sem hluti af innbúi.
- Ef fjölskyldan er með frítímaslysatryggingu gildir hún ef þið stundið almenningsíþróttir. Börn í keppnisíþróttum falla líka undir frítímaslysatryggingu fjölskyldunnar til 18 ára aldurs. Við mælum því með slysatryggingu fyrir keppnisíþróttafólk sem er 18 ára og eldra.
- Í heimilistryggingu er hægt að velja um tvær mismunandi tryggingarfjárhæðir og þrjár mismunandi eigin áhættur. Tryggingarfjárhæðin sem valin er ræður því hverjar hámarksbætur eru í tjónum. Eftir því sem eigin áhættan er hærri þeim mun ódýrari er tryggingin en meiri kostnaður tryggingartaka við tjón.
- Heimilistrygging gildir fyrir þig, maka eða sambúðarmaka og ógift börn ykkar og fósturbörn með sama lögheimili á Íslandi. Tryggingin gildir einnig fyrir börn ykkar yngri en 18 ára sem eiga annað lögheimili á Íslandi.
- Helsti kosturinn við að vera bæði með ferðatryggingu kreditkorts og ferðatryggingu heimilistryggingar er sá að ef hámarksbótafjárhæð er náð í annarri tryggingunni þá tekur hin tryggingin við ef um er að ræða umfangsmikið tjón.
- Við bendum viðskiptavinum okkar á að passa upp á greiðslukvittanir svo hægt sé að framvísa þeim ef tilkynna þarf tjón.
- Bótafjárhæðir eru skattfrjálsar ef um miska- eða örorkubætur er að ræða.
Þú getur séð yfirlit yfir tryggingarnar þínar í VÍS appinu eða með því að skrá þig inn á vefinn okkar.