Hoppa yfir valmynd

Hlut­verk VÍS í
samfé­laginu

Hlutverk okkar sem tryggingafélagunderlineer að vera traust bakland í óvissu lífsins. Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar að velja viðeigandi tryggingavernd svo þeir séu betur undirbúnir fyrir lífsins ólgusjó. Við greiddum viðskiptavinum okkar 17 milljarða í tjónabætur á síðasta ári — en samtals voru þetta 34.000 tjón.

Viðskiptavinir

Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna spyrjum við og mælum reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við hlustum, því við viljum alltaf gera betur. Þarfir viðskiptavinarins er leiðarljósið í öllu okkar starfi.

Tryggingar geta virst flóknar við fyrstu sýn — og því höfum við lagt allt kapp á að einfalda skilmála til þess að gera tryggingar aðgengilegri. Einnig höfum við lagt mikla áherslu á að gera verðskrár gagnsærri.

Meðhöndlun kvartana

Upplýsingaöryggi

Vegna þess að við erum á stafrænni vegferð og framtíðarsýnin er að verða stafrænt þjónustufyrirtæki — þá þurfum við huga vel að stafrænu öryggi. Á árinu 2022 hófst undirbúningur að innleiðingu ISO 27001 um upplýsingaöryggi — en gert er ráð fyrir að innleiðingin klárist á fullu á árinu 2023. Við kappkostum að auka sjálfvirkni og stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini okkar, til dæmis við tilkynningu tjóna og í útgreiðslu þeirra. Til þess að tryggja öryggi gagna leggjum við áherslu á að loka gömlum kerfum, gagnagrunnum og lausnum eins fljótt og auðið er.

Forvarnir

Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar að lenda sjaldnar í tjónum og leggjum því mikla áherslu á forvarnir. Við erum stolt af því að eiga langa sögu um forvarnir og höfðum til dæmis mikil áhrif á notkun barnabílstóla hér á landi. Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni eru því samofin sögu félagins — sem og öllum rekstri þess.

Öllum fyrirtækjum býðst ákveðin forvarnaþjónusta í samræmi við umfang viðskipta. Við viljum vinna náið með viðskiptavinum okkar til þess að koma í veg fyrir tjón. Þess vegna sinnum við öflugu forvarnarstarfi, með einstaklingum og fyrirtækjum. Viðskiptavinir fá aðgang að almennu forvarnafræðsluefni er lýtur að öryggi fyrirtækja og öllum býðst að taka þátt í árlegri Forvarnaráðstefnu VÍS. Reynslan sýnir að það leiðir til raunverulegs árangurs við að fækka tjónum og slysum og um leið fjárhagslegs ávinnings fyrir fyrirtækin.

Þegar viðskiptastjórar okkar fara í heimsóknir er í boði að fá framkvæmt stöðumat forvarna hjá fyrirtækinu. Það veitir stjórnendum góða sýn yfir stöðu öryggismála og forvarna í starfseminni. VÍS hefur þá sérstöðu að geta boðið fyrirtækjum aðgang að atvikaskráningarkerfinu ATVIK sem er mikilvægt verkfæri til að halda utan um áhættur í starfseminni sem meðal annars auðveldar yfirsýn og úrbætur.

Við leggjum líka miklu áherslu á að fræða viðskiptavini okkar um algeng tjón á heimilinu og áhrifaríkar leiðir til þess að koma í veg fyrir tjónin.

Undanfarin misseri höfum við líka lagt áherslu á að vekja athygli á því að öryggi getur verið aðlaðandi og skemmtilegt. Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum svona mikilvægar græjur. Því ekki viljum við að mikilvægar öryggisvörur séu ekki á sínum stað vegna þess að heimilisfólkinu finnist þær ekki nógu fallegar. Mögulega er slökkvitækið komið út í skúr, eldvarnateppið falið ofan í skúffu og hjálmurinn óhreyfður á snaganum. Fjölbreytt úrval er til af fallegum öryggisvörum og við hvetjum þig til þess að kynna þér hvað sé í boði og láta öryggið passa.

Látum öryggið passa

Ábyrgt vöruframboð

Ökuvísir, sem er byltingarkennd nýjung á íslenskum tryggingamarkaði, var kynntur til leiks á árinu 2021. Þetta er annar valkostur í ökutækjatryggingum þar sem málið snýst um að keyra minna og betur og stuðla að öruggari umferð og minni kolefnislosun. Tilgangurinn er að fækka umferðarslysum á Íslandi. Við viljum hvetja viðskiptavini okkar að keyra með öruggari hætti, því slíkur akstur dregur úr losun.

Viðskiptavinum félagsins er verðlaunað fyrir góðan og lítinn akstur með lægri iðgjöldum. Ökuvísir er eina bílatryggingin á Íslandi þar sem einungis tveir þættir hafa áhrif á verðið, þ.e. hvernig þú keyrir (aksturseinkunn) og hversu mikið þú keyrir. Ökuvísir snýst einfaldlega um að keyra vel — og borga minna. Verðskrá fyrir tryggingu hefur aldrei verið jafn skýr og gagnsæ. Því betur sem þú keyrir, því minna borgarðu. Svo einfalt er það.

Minni og betri akstur dregur ekki einungis úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur dregur hann einnig úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá samgöngum á borð við staðbundna loftmengun (svifryksmengun), þynningu ósonlagsins, þrávirkra lífrænna efna, hávaðamengun, svifryksmengun, viðhaldi vega og bifreiða og umferðarslys.

Þessi tækni er vel þekkt erlendis og þar sýnir reynsla að tjónum fækkar allt að að 20% hjá þeim sem nota slíka tækni. Við styðjum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna — sérstaklega heimsmarkmið þrjú sem snýr að heilsu og vellíðan en þar beinum við spjótum okkar að forvörnum. Undirmarkmið 3.6 fjallar um að fækka banaslysum í umferðinni. Með Ökuvísi og í samvinnu við viðskiptavini okkar höfum við fulla trú á því að það takist að fækka bílslysum á Íslandi.

Þess ber að geta að meirihluti viðskiptavina okkar með Ökuvísi hafa stórbætt akstur sinn. Betri akstur þýðir færri tjón — og færri slys. Við erum stolt af þessu framlagi okkar til samfélagsins — því öruggt umhverfi skapar betra samfélag.

Ökuvísir

Fjárfestingar

Árið 2021 var VÍS fyrsta tryggingafélagið á Íslandi til þess að verða aðili að UN-PRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Í gegnum eignasafn sitt hefur félagið mikil áhrif. Með því að taka tillit til sjálfbærniþátta í fjárfestingum lágmarkar félagið áhættu tengda sjálfbærnimálum — á sama tíma og það virkjar önnur félög til betri starfshátta.

Fjárfestingastefna

Fjárfestingastefna VÍS skal miða að því að skapa arðsemi með sjálfbær sjónarmið að leiðarljósi. Í fjárfestingum verði lögð áhersla á framúrskarandi rekstur, góða ávöxtun og markvissa innleiðingu umhverfis- og loftslagsþátta, félagslegra þátta og hagsældar ásamt góðum stjórnarháttum (UFS).

VÍS er aðili að UN-PRI (UN Principles for Responsible Investment), en með því skuldbindur félagið sig til þess að innleiða og útfæra meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Félagið er einnig aðili að IcelandSif, umræðuvettvangi um ábyrgar fjárfestingar, þar sem markmiðið er að efla þekkingu á ábyrgum fjárfestingum.

Félagið skal leggja sitt af mörkum til aukinnar sjálfbærni í íslensku samfélagi með því að leggja áherslu á sjálfbærar fjárfestingar og vera öðrum fyrirtækjum hvatning til þess að gera slíkt hið sama.

Félagið leggur áherslu á öfluga upplýsingagjöf þar sem sjálfbærni er óaðskiljanlegur hluti af fjárhagsupplýsingum. Félagið skal leggja áherslu á gagnsæ vinnubrögð og innleiðingu UFS viðmiða við fjárfestingarákvarðanir sem og í fjárfestingarstarfsemi þess.

Framkvæmd

Félagið skal leitast við að fjárfesta í fyrirtækjum og sjóðum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi og taka virkan þátt í þróun á sjálfbærum fjármálaafurðum. Þetta gildi um allar fjárfestingar félagsins, þ.m.t. alla fjárfestingarflokka og fjármagn í stýringu utanaðkomandi aðila. Leitast skal við að fjárfesta í félögum sem fylgja alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbærni, til dæmis UN-PRI.

Í þeim tilvikum þar sem upplýsingar um tilteknar fjárfestingar eru af skornum skammti er félaginu ekki unnt að ábyrgjast að þær fjárfestingar muni samrýmast stefnu þessari. Af þeim sökum gildir stefnan ekki um allar óbeinar fjárfestingar félagsins, svo sem fjárfestingar í sjóðum í stýringu utanaðkomandi aðila, kauphallarsjóði eða sérhæfða sjóði. Ef fjárfestingakostir, sem eru í boði, teljast vera sambærilegir eða uppfylla kröfur félagsins um arðsemi og sjálfbærni skulu slíkir kostir valdir.

Meginreglur

Fjárfestingar félagsins byggja á eftirfarandi meginreglum:

  • Meginregla 1: UFS viðmið skulu innleidd í allar fjárfestingar og ákvarðanatöku.
  • Meginregla 2: Félagið skal í eigendahlutverki sínu í sjóðum og fyrirtækjum hvetja til þess að sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi í hvívetna.
  • Meginregla 3: Félagið skal kalla eftir UFS upplýsingum í þeim fjárfestingum sem það tekur þátt í, s.s. frá sjóðum og fyrirtækjum.
  • Meginregla 4: Félagið skal beita sér fyrir innleiðingu UFS viðmiða innan fjárfestingargeirans og hvetja til þátttöku í IcelandSIF sem og aðild að UN-PRI.

Ákvörðun um útilokun

Forstjóri félagsins skal taka ákvörðun um útilokun á fjárfestingakostum sem uppfylla ekki viðmið og reglur um ábyrgar fjárfestingar.

Gagnsæi

Gagnsæi ásamt ítarlegum og fullnægjandi upplýsingum eru lykilatriði fyrir fjárfesta. Félagið væntir þess að fyrirtæki veiti greinargóðar upplýsingar um UFS þætti sem geta haft veruleg áhrif á greiningar og ákvarðanir fjárfesta.

Vinnustaðurinn VÍS

VÍS er framúrskarandi vinnustaður með einstaka vinnustaðamenningu. Við sköpum tækifæri fyrir starfsfólkið okkar til þess að vaxa og dafna — í lífi og starfi. Við berum hag starfsfólks okkar fyrir brjósti og viljum sýna umhyggju í verki. Við leggjum ríka áherslu á að VÍS sé góður og fjölskylduvænn vinnustaður.

Við erum stolt af því að hafa náð að útrýma launamun kynjanna hjá félaginu. Allt frá því að við settum jafnréttismálin á oddinn fyrir tæpum 20 árum hafa margir áfangasigrar unnist. Við vorum í hópi þeirra fyrirtækja sem fyrst fengu jafnlaunavottun fyrir fjórum árum eða í lok árs 2017 — og í samræmi við vottunina hefur launamunur verið óverulegur og innan viðmiðunarmarka. Nú höfum við náð þeim mikilvæga áfanga að ekki mælist launamunur hjá félaginu.

Undanfarin þrjú ár höfum við fengið viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA, við erum með 9 í jafnréttiseinkunninni í GemmaQ, sem horfir til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækja í Kauphöllinni út frá jafnrétti kynjanna. Þess ber að geta að meðaltalið í Kauphöllinni er 7.

Við leggjum ríka áherslu á jafnrétti — og er hlutfall framkvæmdastjóra og forstöðumanna er til helmings konur og karlar. Við leggjum ríka áherslu á heilbrigða og góða vinnustaðamenningu — og öfluga ferla sem taka á erfiðum málum. Þetta skiptir okkur máli og við viljum vanda okkur.

Í jafnréttis- og jafnlaunastefnu VÍS kemur skýrt fram að VÍS er vinnustaður þar sem kynbundin- kynferðisleg áreitni, ofbeldi eða einelti líðst ekki. Hjá VÍS er skýr farvegur í málefnum er snúa að einelti og kynferðislegri áreitni þar sem starfsfólki er gerð skýr grein fyrir boðleiðum og framvindu slíkra mála. Hjá VÍS er litið svo á að það sé sameiginlegt verkefni alls starfsfólks að fylgja eftir jafnréttis- og jafnlaunastefnu félagsins.

Hver og einn einstaklingur verður að gæta þess að sýna virðingu, hreinskiptni og nærgætni í samskiptum sínum við aðra. Einnig er það ábyrgð hvers starfsmanns að vera vakandi fyrir umhverfi sínu og siðferðisleg skylda hans að bregðast við verði hann vitni að því sem gæti talist EKKO mál (EKKO er stytting á Einelti, Kynferðisleg áreitni, Kynbundin áreitni og Ofbeldi).

Allir starfsmenn VÍS skrifa undir siðasáttmála þegar þeir hefja störf hjá félaginu. Við leggjum mikla áherslu á gagnsæi og vönduð vinnubrögð.

Jafnréttis- og jafnlaunastefna

Hringrásarhagkerfið

Við viljum einnig hjálpa viðskiptavinum okkar að velja umhverfisvænni kosti. Við erum lögð af stað í sjálfbæra vegferð og viljum auka umhverfisvægi í bílaviðgerðum. Við viljum leggja okkar að mörkum til hringrásarhagkerfisins, til dæmis með því að auka hlutfall notaðra varahluta, þegar það á við.

Þess ber að geta að umfang okkar til hringrásarhagkerfisins er umtalsvert — en undanfarin 20 ár höfum við selt um 1000 tjónaðra bíla á ári. Bílarnir eru ýmist lagfærðir eða bútaðir í sundur til þess að gefa varahlutunum framhaldslíf.

Uppboðsvefur VÍS