Ertu að fara á flakkið?
Við erum að detta inn á tímabil þar sem fólk fer gjarnan í lengri frí og ferðalög. Styttri vinnuvikur í kortunum og gott að kúpla sig út úr daglegu amstri. Það er því gott að huga að ferðatryggingum og tryggja að þú sért með aðgengi að góðri þjónustu og aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Það hefur reynst mörgum bjargvættur að hafa tryggingar í lagi þegar slys eða veikindi verða erlendis þar sem upphæðir í slíkum tilfellum geta fljótt orðið háar. Ferðatrygging VÍS gildir alls staðar í heiminum í 92 daga. Ferðatryggingar á kreditkortum gilda alls staðar í heiminum í annað hvort 60 daga eða 90 daga - það fer eftir því hvaða kort þú ert með.
Gott að vita
Ferðatrygging er valkvæð í heimilistryggingu VÍS en algengt er að fólk sé með ferðatryggingar á kreditkortunum sínum. Við mælum svo sannarlega með því að fólk sé með ferðatryggingar á báðum stöðum. Helsti kostur þess er sá að ef hámarksbótafjárhæð er náð í annarri tryggingunni þá tekur hin tryggingin við til að ná yfir allan kostnaðinn. Auk þess er hægt að framlengja ferðatryggingu í heimilistryggingu VÍS sem ekki er hægt á kortunum. Þetta getur verið mikilvægt þegar um alvarleg slys eða veikindi er að ræða og einstaklingur lendir inn á sjúkrahúsi eða þarf flutning heim til Íslands.
Áður fyrr þurfti að greiða fyrir ferðir erlendis með því kreditkorti en í dag þarf það ekki. Svo lengi sem þú ert með kort sem inniheldur ferðatryggingar, eru tryggingarnar gildar. Þá er gott að vita að ferðatryggingar á kreditkortum gilda líka á ferðalögum innanlands en til að þær séu gildar innanlands þarf annað hvort að greiða helming ferðakostnaðar innanlands með kortinu, nýta raðgreiðslur eða bóka gistirými fyrir fram og gefa upp kortanúmer til greiðslu. Mikilvægt er að ganga frá kaupum eða bókun áður en þú leggur af stað í ferðina frá heimilinu þínu.
Ef eitthvað kemur upp á
Ef þú forfallast í ferð, þarft að sækja læknisþjónustu, liggur inn á sjúkrahúsi hálfan ferðatímann eða neyðist til að stytta ferðina þína getur þú sótt bætur í ferðatrygginguna þína. Þá eru bætur einnig greiddar ef farangurinn þinn tefst og farangurinn sjálfur er sömuleiðis tryggður. Áður en þú getur sótt bætur vegna forfalla í ferð þarftu fyrst að leita til söluaðila. Ef þú færð ekki allan útlagðan kostnað endurgreiddan hjá söluaðila sækir þú í ferðatrygginguna þína. Algengustu tjón sem eru tilkynnt eru forfallatjón og sjúkrakostnaður erlendis - því er mikilvægt að halda utan um alla reikninga, myndir og skýrslur ef til tjóns kemur.
Við mælum með því að vera með skráða ,,Emergency contacts“ í símanum hjá þér þannig að viðbragðsaðilar geti auðveldlega haft samband við rétta aðila eða aðstandendur ef nauðsyn krefur.
Mikilvægt er að hafa evrópska sjúkratryggingakortið með í för þegar ferðast er um Evrópu. Þú sækir um kortið á island.is en það gildir hjá allri opinberri heilbrigðisþjónustu í EES löndum, Bretlandi og Sviss. Ef farið er á einkarekna sjúkrastofnun er óskað eftir staðfestingu ferðatryggingar. Inn á vis.is getur þó sótt þessa staðfestingu og haft hana til taks í símanum þínum eða prentað hana út.
Á staðfestingunni eru allar helstu upplýsingar sem þú þarft að vita ef um alvarlegt slys eða ófyrirséð og alvarleg veikindi bera að á ferðalagi erlendis. Mikilvægt er að tilkynna slys eða veikindi til SOS International en þau sjá um að staðfesta ferðatrygginguna fyrir þig og greiða fyrir þá þjónustu sem þér er veitt sé atvikið bótaskylt. Starfsfólk SOS International er sérþjálfað og þau geta aðstoðað þig við að útvega lækni, sjúkrahúsvist og heimflutning. Hægt er að hafa samband við SOS allan sólarhringinn.
Tékklistinn:
- Láttu vita af ferðum þínum.
- Merktu farangurinn þinn.
- Vertu með staðfestingu ferðatryggingar til taks.
- Skráðu tengiliði sem ,,Emergency contacts“ í símann.
- Ef eitthvað kemur upp á, passaðu vel upp á alla reikninga, myndir og skýrslur því þú gætir þurft að framvísa þessum gögnum þegar þú tilkynnir tjónið.
Algengar spurningar um ferðatryggingar