Viðskiptavinir VÍS í Grindavík fá tryggingar endurgreiddar
Einstaklingar og fyrirtæki fá fasteigna- og heimilistryggingar endurgreiddar fyrir fjóra mánuði.
Líkt og hjá allri þjóðinni, þá er hugur okkar hjá Grindvíkingum. Við viljum gera það sem við getum til að koma til móts við viðskiptavini okkar á svæðinu sem standa frammi fyrir mikilli óvissu. Í ljósi aðstæðna höfum við ákveðið að endurgreiða einstaklingum og fyrirtækjum iðgjöld af fasteignum og heimilum sem nemur fjórum mánuðum enda óvíst hvenær hægt verður að snúa aftur til Grindavíkur.
Við endurgreiðum einstaklingum iðgjöld fyrir bruna-, húseigenda-, og fjölskyldu- og innbústryggingar. Fyrirtækjum endurgreiðum við iðgjöld fyrir bruna- og húseigendatryggingar.
Starfsfólk VÍS hefur auk þess boðið Grindvíkingum að fá sumarbústaði starfsmannafélagsins til afnota.
Við vonum innilega að þetta komi sér vel fyrir Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum og verðum í sambandi við viðskiptavini okkar eftir helgi um næstu skref.
Spurt & svarað
- Hvaða mánuði mun VÍS endurgreiða?
Við endurgreiðum iðgjöld af tryggingum sem nemur fjórum mánuðum fyrir utan lögboðin opinber gjöld. - Á þetta líka við um fasteignir utan Grindavíkur?
Nei, þetta á einungis við um fasteignir í Grindavík. - Þarf ég að hafa samband til að fá endurgreitt?
Nei, engar áhyggjur við sjáum um þetta og höfum samband við þig.
Ef þú ert með einhverjar spurningar eða vangaveltur þá hvetjum við þig til þess að senda okkur fyrirspurn eða heyra í okkur í síma 560 5000. Við erum til staðar fyrir þig.