VÍS er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum
Skagi, VÍS og Fossar fjárfestingarbanki hlutu nýverið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. VÍS og Fossar eru dótturfélög Skaga.

Að viðurkenningunni standa Stjórnvísi, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Afhending fór fram á veitingastaðnum Nauthóli í Nauthólsvík föstudaginn 22. ágúst.
Markmið nafnbótarinnar, sem veitt er árlega, er sögð að efla traust í viðskiptalífinu með því að hvetja til faglegra vinnubragða og ábyrgari ákvarðanatöku. „Fylgni við góða stjórnarhætti stuðlar að faglegri ákvarðanatöku, ábyrgari rekstri og bættri samskiptamenningu innan fyrirtækja.“
Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga:
„Það gleður okkur mjög að vera þess heiðurs aðnjótandi að teljast í hópi fyrirmyndarfyrirtækja í góðum stjórnarháttum og fögnum þegar því er veitt athygli sem vel er gert. Viðurkenningin sýnir að innviðir í samstæðu Skaga skapa faglega umgjörð um starf stjórna og stjórnenda, sem eflir traust, skilvirkni og ábyrgð. Ég óska aðstandendum Skaga, VÍS og Fossa til hamingju með árangurinn.“
Alls hlutu sautján fyrirtæki viðurkenninguna að þessu sinni.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, afhentu viðurkenningarnar í Nauthóli.
Hópmynd eftir afhendingu viðurkenninga við Nauthól, föstudaginn 22. ágúst 2025. Mynd/HAG