Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 24.10.2025

Öll fyrirtæki geta sótt um Forvarnaverðlaunin

Öll fyrirtæki geta nú sótt um Forvarnaverðlaun VÍS – „Öryggi er samfélagslegt verkefni, ekki samkeppnismál“ 

Í fyrsta sinn geta öll fyrirtæki á landinu sótt um Forvarnaverðlaun VÍS, óháð því hvar þau eru tryggð. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2010 og eru orðin veigamikill vettvangur til að vekja athygli á framsýnu og öflugu öryggis- og forvarnarstarfi á íslenskum vinnustöðum. 

„Öryggi er samfélagslegt verkefni, ekki samkeppnismál. Það er verkefni fyrirtækja, stjórnvalda og samfélagsins í heild að tryggja að allir komist heilir heim. Við viljum efla umræðuna um mikilvægi öryggis og forvarna og bjóðum því öllum fyrirtækjum og stofnunum landsins til þess að sækja um verðlaunin,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS.   

Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum: annars vegar fyrir fyrirtæki með færri en 100 starfsmenn og hins vegar fyrir fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri. Við val er horft til heildarsýnar á öryggisstarf: m.a. fræðslu, viðbragðsáætlana, forvarnarvinnu og þátttöku starfsfólks. 

Guðný leggur áherslu á að sterk öryggismenning skili sér í betri vellíðan starfsfólks. „Þetta snýst ekki bara um kerfi og skýrslur, heldur um fólk og öryggistilfinningu þeirra. Á endanum skilar sér það í betri vellíðan og meiri árangri í starfi.“ 

Hægt er að sækja um forvarnaverðlaunin á vis.is til 30. október nk. Verðlaunin verða veitt á Forvarnaráðstefnu VÍS sem haldin í Hörpu verður þann 12. mars 2026. Ráðstefnan verður tileinkuð umferðaröryggi þar sem boðið verður upp á erindi, reynslusögur og innsýn í öflugt öryggisstarf fyrirtækja, auk umfjöllunar um þær áskoranir sem steðja að íslensku samfélagi á þessu sviði.