Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 11.11.2025

Minnumst þeirra sem hafa látist í umferðarslysum

Sunnudaginn 16. nóvember kl. 14:00 verður haldinn minningardagur þeirra sem hafa látist í umferðarslysum. Dagurinn er að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og markmiðið að vekja athygli á áhrifum umferðarslysa og mikilvægi umferðaröryggis.

Á þessum degi er hvatt til þess að við stöldrum við og sýnum samstöðu með aðstandendum þeirra sem hafa misst ástvini í umferðinni, jafnframt því sem við íhugum hvernig við getum öll lagt okkar af mörkum til að gera umferðina öruggari.

Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Frá því að fyrsta banaslysið var skráð á Íslandi 25. ágúst 1915 hafa samtals 1632 einstaklingar látist í umferðinni (m.v. 30. október 2025). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Hér á landi verður kastljósinu sérstaklega beint að bílbeltanotkun í ár en kannanir hafa leitt í ljós nokkurt bakslag í notkun belta, sérstaklega hjá ungum karlmönnum. Öryggisbelti minnka líkur á dauðsfalli í fólksbílum um allt að 45% og með notkun þeirra hefði mátt koma í veg fyrir  fjölda banaslysa og alvarlegra slysa.

Við hvetjum alla til að taka þátt á sinn hátt. Kveikja ljós í minningu látinna, sýna aðgát í umferðinni og leggja áherslu á virðingu og ábyrgð í umferðarhegðun því saman getum við unnið að því að fækka slysum og bjarga mannslífum.