Mikilvægt að vera á tánum
Breyting verður í veðri um helgina þegar hlýnar og fer að rigna. Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS hefur áhyggjur af því að margir eigi eftir detta á klakanum þegar hann blotnar og verður háll og að vatnstjón geti orðið þegar vatn reynir að finna sér leið.
60 hálkuslys á einum degi
„Ég hvet öll til að nota mannbrodda, fara í skó með grófum sóla, stytta skrefin og fara jafnvel yfir í mörgæsaganginn svokallaða til að minnka líkur á að detta a.m.k. í dag og um helgina. Þegar viðlíkar aðstæður voru síðast fyrir um mánuði síðan komu 60 einstaklingar á bráðamóttöku Landsspítalans vegna hálkuslysa og voru 29 þeirra með beinbrot. Þannig það er til mikils að vinna að gera allt til að halda sér á fótunum“ segir Sigrún.
Möguleg vatnstjón um helgina
Þó ekki verði endilega asahláka í þessum hlýindum þá er snjór og klaki yfir öllu og jörð gaddfreðin og tekur ekki við neinu vatni. Þá er eins gott að niðurföll virki og vatn eigi greiða leið að þeim bendir Sigrún á og ef enginn man hvar niðurfallið er staðsett þá er t.d. hægt að sjá það á Borgarvefsjá fyrir Reykjavík.
„Við þessar aðstæður er ágætis möguleiki á að það leki með plötuskilum, sprungum, þaki og svölum húsa sem eru óbótaskyld tjón. Það er því svo mikilvægt að moka snjónum frá veggjum og af svölum svo blautur snjórinn og vatn liggi ekki þar.“
Alvarleg tjón í sumarhúsum
Undanfarnar vikur hafa því miður orðið alvarleg tjón í sumarhúsum hjá viðskiptavinum okkar þar sem vatn hefur frosið í lögnum. „Dæmi eru þar um mjög miklar skemmdir, mun meiri en nokkur getur ímyndað sér nema þeir sem hafa reynt það og því mikilvægt að sumarhúsaeigendur kíki við og athugi hvort allt sé í lagi um helgina og næstu daga.“
Sigrún segir að ef ekkert vatn komi úr krönum eða að hiti farinn af húsi þurfi að finna rót vandans. Hafi kalda vatnið frosið geti hjálpað að láta heita vatnið renna í einhvern tíma. Ef það beri ekki árangur þurfi að finna út hvar frosið er og hita upp það svæði undir eftirliti. Gangi ekki að koma vatni á þarf að skrúfa fyrir neysluvatnið og heyra í pípara.
Skemmtilegt viðtal var tekið við Sigrúnu um stöðuna í Bítinu á Bylgjunni.