Gulur september
Andleg heilsa er grundvallaratriði í lífi okkar allra og mikilvægt að við ræðum hana opinskátt, án fordóma og með virðingu.

Í september er lögð sérstök áhersla á þetta mikilvæga málefni með herferðinni Gulur september, þar sem markmiðið er að minna á mikilvægi forvarna gegn sjálfsvígum og styðja þá sem glíma við andlega erfiðleika.
Í sjálfsvígsforvörnum er samvinna besta vopnið því við getum öll haft áhrif með því að tala opinskátt um andlega heilsu, brjóta niður þögnina.
Líftryggingar eru mikilvægar í okkar starfsemi og því tengjum við jafnframt sterkt við þetta málefni. Líftryggingar snúast ekki aðeins um fjárhagslegt öryggi – þær minna okkur líka á mikilvægi þess að standa saman, hugsa um velferð hvers annars og bregðast við þegar lífið verður ófyrirsjáanlegt.
Píetasamtökin sinna mjög mikilvægu starfi í forvörnum og meðferð við þá sem eru í sjálfsvígshættu eða sjálfsskaða og stuðningur við aðstandendur. Þjónustan er gjaldfrjáls. Með því að styðja Píetasamtökin viljum við leggja okkar af mörkum til þess að veita von, öryggi og stuðning í samfélaginu.
10. september, á alþjóðlegum degi sjálfsvígsforvarna, hvetjum við alla til að klæðast gulu til að sýna samstöðu, veita von og minna á að enginn þarf að ganga í gegnum erfiða tíma einn. Gulur litur táknar birtu, hlýju og von – það sem við viljum að andleg heilsa allra endurspegli.
Sýnum kærleika en jafnframt aðgát og umhyggju ❤️
Munum síma Píetasamtakanna 552 2218 og Hjálparsíma Rauða Krossins 1717.