Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 30.09.2025

Flotbjörgunarbúningar afhentir Slysavarnarskólanum í 15. skipti.

Á dögunum tók skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna á móti tíu nýjum flotbjörgunarbúningum frá VÍS en alls eru búningarnir orðnir 150 sem félagið hefur gefið.

Frá vinstri - Kjartan Thor Pálsson frá Landsbjörg, Stefán Smári Skúlason frá Landsbjörg, Guðný Helga Herbertsdóttir frá VÍS, Bogi Þorsteinsson frá Landsbjörg, Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir frá VÍS og Bjarni Guðjónsson frá VÍS

Slysavarnaskóli sjómanna gegnir mikilvægu hlutverki í forvörnum og endurmenntun sjómanna, en skólinn heldur námskeið um öryggis- og björgunarmál um borð í skólaskipinu Sæbjörgu. Allir flotbjörgunarbúningarnir, sem nemendur og kennarar skólans nota til að æfa björgun og meðferð björgunarbúnaðar, eru frá VÍS. Við afhendingu á búningunum fengu forsvarsmenn VÍS að slást í för á æfingu skólans.


„Við erum virkilega stolt af samstarfi okkar við Slysavarnaskóla sjómanna. Forvarnir skipa stóran sess í okkar starfsemi og við viljum láta gott af okkur leiða. Flotbjörgunarbúningarnir eru gott dæmi um öryggisbúnað sem hefur bjargað mannslífum á sjó, þess vegna er mikilvægt að vera með slíkan búnað í kennslu hverju sinni,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS.  

Bogi Þorsteinsson, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna tekur undir orð Guðnýjar. „Við erum einstaklega þakklát fyrir gott samstarf við VÍS. Það er mikilvægt að geta notað réttan öryggisbúnað í kennslu og á sjó og um leið þjálfa öryggisvitund og stuðla að góðri öryggismenningu um borð.“