Alcoa Fjarðaál og Sæplast hlutu Forvarnaverðlaun VÍS
Forvarnaráðstefna VÍS var haldin í fimmtánda sinn í Hörpu í dag, 20. mars, og var yfirskrift ráðstefnunnar „Vinnum með öryggi alla daga“. Ráðstefnan er ein sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem sérfræðingar og stjórnendur deila reynslu sinni af öryggis- og forvarnamálum. Sex erindi voru á dagskrá ásamt veitingu Forvarnaverðlauna til þeirra sem sýna fram á framúrskarandi árangur í öryggismálum.
Tækni og gögn undirstaða öryggis
Alcoa Fjarðaál hlaut verðlaunin í flokki fyrirtækja með fleiri en 100 starfsmenn. Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði er eitt nútímalegasta og tæknivæddasta álver í heimi þar sem ítrasta öryggis er gætt í öllum þáttum starfseminnar. Áhættumat og ítarlegar greiningar eru undirstaða öryggis þar sem hver vakt byrjar á örfundi þar sem farið er yfir stöðu verka og öryggisatriði rýnd. Öflugt eldvarnaeftirlit er til staðar og fá 30 manns reglubundna þjálfun hjá Slökkviliði Fjarðarbyggðar. Ferlar, skipulag og gagnavinnsla styður allt við öfluga öryggismenningu hjá Alcoa Fjarðaáli.
Virk þátttaka og framtakssemi
Í flokki fyrirtækja með færri en 100 starfsmenn bar Sæplast sigur úr býtum. Sæplast, sem staðsett er á Dalvík, hefur löngum verið á heimsmælikvarða í hönnun og framleiðslu á plastkerum og er hluti af alþjóðlegri samstæðu Rotovia. Forvarnir og öryggismál eru samofin allri starfsemi og stjórnendur virkir þátttakendur. Mikil áhersla er á úrbætur í kjölfar atvika, slysa eða næstum slysa og hafa lausnir við þeim vakið athygli innan samstæðunnar og innleiddar þar.
Hvatningarverðlaun fyrir góðan árangur
Auk Alcoa Fjarðaáls og Sæplasts fengu Coripharma, FISK-Seafood, Colas Íslandi og Loftorka Reykjavík hvatningarverðlaun VÍS fyrir eftirtektarverðan árangur í öryggismálum.
„Öryggi er eitthvað sem þarf að vinna stöðugt í til að viðhalda því og efla enda breytast áskoranir með tímanum sem og kröfur okkar um öryggi. Við erum stolt af viðskiptavinum okkar sem standa sig framúrskarandi vel í öryggismálum. Fyrirtækin sem voru heiðruð í dag eiga skilið lof fyrir árangur sinn og ættu að vera öllum til fyrirmyndar,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS.