Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 11.11.2025

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað

Samkvæmt vinnuverndarlögum ber hverju fyrirtæki að setja fram áætlun um öryggi og heilbrigði sem tekur mið af starfsemi fyrirtækisins og þeim áhættum sem þar eru.

Áætlunin er ekki bara lagaskylda heldur líka mikilvæg fjárfesting í velferð starfsfólks og framtíð fyrirtækisins.

Markmið

  • Koma í veg fyrir slys og heilsutjón.
  • Stuðla að öruggu, heilsusamlegu og jákvæðu vinnuumhverfi.
  • Tryggja rétt og markviss viðbrögð við slysum og óhöppum.

Innihald

  • Greining á áhættu í starfi vegna tækja, efna, umhverfis, vinnuaðstæðna, vinnuálags og sálfélagslegra þátta.
  • Viðbragðsáætlun ef slys, eldsvoði eða önnur óhöpp verða.
  • Nýliðaþjálfun og endurmenntun starfsmanna í öryggismálum.
  • Viðhald og endurskoðun öryggisbúnaðar og vinnuskipulags.

Uppsetning og framkvæmd

Best er að starfsfólk komi að gerð áætlunar sem þarf að vera skrifleg, aðgengileg öllu starfsfólki og endurskoðuð reglulega, að minnsta kosti einu sinni á ári eða þegar breyting verður á starfseminni. Hægt að styðjast við ýmis sniðmát við gerð áætlunar en gott er að hafa hana einfalda og skýra.  

  1. Inngangur – lýsing á tilgangi og gildissviði áætlunarinnar.
  2. Greining áhættu – upptalning helstu hætta og áhættumatsniðurstaða.
  3. Markmið og aðgerðir – hvað þarf að bæta, hvernig og hvenær.
  4. Ábyrgðarskipting – hver ber ábyrgð á hverju.
  5. Eftirlit og endurskoðun – hvernig tryggja eigi að áætlunin sé lifandi skjal.

Mikilvægt er að áætluninni sé fylgt eftir í daglegum rekstri svo vinnuverndarstarfið verði eðlilegur og samofinn hluti af starfsemi fyrirtækisins.