Svartahálka varasöm
„Svokallaður mörgæsargangur getur verið nauðsynlegur þegar svartahálka birtist“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.
Þekkir þú svarta hálku?
Líklegast ekki í sjón enda er hún svo til ósýnileg og kemur hún okkur yfirleitt í opna skjöldu. „Svartahálka myndast þegar blautt er úti en frystir síðan snögglega og verður til þess að fallslys og árekstrar, sér í lagi aftanákeyrslur, eru í háum hæðum. Á slíkum dögum eru jafnvel 30 einstaklingar eða fleiri að leita á slysadeild vegna hálkuslysa“ segir Sigrún. ,,Stundum næst að upplýsa einstaklinga um hálkuna í fjölmiðlum í tíma en alls ekki alltaf“ bætir Sigrún við.
Hvað er best að gera?
Þegar blautt eða rakt hefur verið úti og frystir snögglega ættum við að hafa svartahálku í huga bendir Sigrún á. „Við þessar aðstæður skauta bílar gjarnan áfram þó dekkin séu góð og fólk rennur þó skórnir séu stamir. Þá gildir að hægja á sér sama hvort sé á bíl, hjóli eða gangandi. Ökumenn verða eins að gæta að bili yfir í næsta bíl og taka enga sénsa í umferðinni. Að salta og sanda er líka góð vörn við þessar aðstæður sama hvort er við heimili, fyrirtæki eða stofnanir“ segir Sigrún enda getur svartahálka verið svo lúmsk og ekki endilega greinileg.