Heitt vatn tekið af stórum hluta
Heitt vatn verður tekið af stórum hluta höfuðborgarsvæðisins kl. 22 mánudaginn 19. ágúst og má vænta að það verði sett aftur á um hádegi á miðvikudag.
Við viljum hvetja til árvekni þegar vatni verður hleypt á til að koma í veg fyrir vatnstjón sem alltaf er hætta á við þessar aðstæður.
Nokkur góð VÍS ráð:
- Verum viss um að skrúfað sé fyrir heitavatnskrana þegar vatni er hleypt á. Á sumum krönum er auðvelt að ruglast á í hvora áttina er snúið þegar skrúfað er fyrir og getur verið gott að merkja það áður en vatn er tekið af á mánudagskvöld.
- Flestar þvotta- og uppþvottavélar taka bara kalt vatn inn á sig. Þær vélar er hægt að nota þó heitavatnslaust sé.
- Þegar vatn er komið á er tilvalið að athuga hvort merki sé um leka á lagnagrind. Ef svo er þarf að skrúfa fyrir inntak lagnagrindar. Ef ekki er vitað hvaða krana um ræðir er um að gera að kynna sér það áður en vatni er hleypt á.
- Gott er að skoða alla ofna eftir að heitavatnið er komið á ný. Hvort merki sé um leka, sér í lagi á samskeytum og neðst á ofnum eða hvort þeir hitni. Ef ofnar hitna ekki getur dugað að skrúfa termóstatið nokkrum sinnum fram og til baka. Ef það skilar engum árangri getur þurft að taka termóstatið af og ýta við litla pinnanum sem þar er.
- Ef rennsli er lítið þegar vatn er komið á getur verið að sandur sé í síum krana sem þurfi að hreinsa. Eins getur sandur safnast fyrir í síju lagnagrindar. Ef þarf að hreinsa hana þá borgar sig að fá aðila í verkið sem kann til verka.
- Alltaf er kostur að einhver sé við þegar vatn er sett aftur á þar sem heitt vatn skemmir mjög hratt ef það lekur.
- Hér verður hægt að fylgjast með framvindu framkvæmdar og sjá nánari upplýsingar frá Félagi pípulagningameistara.