Öryggisbúnaður sem bjargar lífi
VÍS gefur Slysavarnaskóla sjómanna tíu flotvinnubúninga.
Fjórtánda árið í röð gefur VÍS Slysavarnaskóla sjómanna tíu flotvinnubúninga sem er nauðsynlegur öryggisbúnaður í starfi skólans. Slysavarnaskóli sjómanna gegnir mikilvægu hlutverki í forvörnum og endurmenntun sjómanna, en skólinn heldur námskeið um öryggis- og björgunarmál. Kennsla fer fram um borð í skólaskipinu Sæbjörgu. Allir flotvinnubúningarnir, sem nemendur og kennarar skólans nota til að æfa björgun og meðferð björgunarbúnaðar, eru frá VÍS. Flotvinnubúningarnir eru nú orðnir 140 talsins.
Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, er ánægð með samstarfið við Slysavarnaskóla sjómanna: „Við erum stolt af samstarfinu við Slysvarnaskóla sjómanna því við viljum fækka slysum á sjó. Vinnuumhverfi sjómanna getur verið krefjandi og hættur leynst víða. Forvarnir og réttur öryggisbúnaður geta því skipt öllu máli. Svo má ekki gleyma mikilvægi þess að endurnýja öryggisbúnaðinn með reglulegu millibili. Við erum ánægð með að geta lagt okkar af mörkum til öryggismála sjómanna því forvarnir eru okkar hjartans mál.“
Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, er þakklátur fyrir gott samstarf við VÍS: „Slysavarnaskóli sjómanna hefur lagt mikla áherslu á forvarnir og mikilvægi öryggisbúnaðar undanfarna áratugi. Krefjandi björgunaræfingar fara fram í skólanum, svo sem brunaæfingar um borð í skipum, björgun úr sjó og björgun úr björgunarbát. Þetta eru mikilvægar æfingar í kennslu og notkun öryggisbúnaðar. Flotvinnubúningar eru gott dæmi um öryggisbúnað sem hefur bjargað mannslífum á sjó, þess vegna er mikilvægt að vera með nýjan slíkan búnað í kennslu hverju sinni. Þetta framlag VÍS skiptir okkur því miklu máli. Við erum þakklát fyrir gott og traust samstarf undanfarin 14 ár.“