Ekki skúta upp á bak
Við kynnum með stolti nýtt átak í samstarfi við Samgöngustofu til að sporna við farsímafitli, gáleysi og öðru óæskilegu á rafskútunni.
Mikill fjöldi fólks notar rafskútur á hverjum degi og þótt fáir gefi afslátt af öryggi sínu, þá getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Í nýlegri skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys árið 2022 eru upplýsingar sem vekja athygli og vert er að staldra við.
Um fjórðungur allra látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni árið 2022 voru á rafhlaupahjólum, eða 49 tilvik af 204. Sömu tölur fyrir fólksbíla eru 61 tilvik af 204 en á það verður að líta að umferð fólksbíla er margfalt meiri en rafhlaupahjóla. Þessar tölur gefa til kynna að meiri áhætta er fólgin í því að vera á rafskútu heldur en í bíl.
Í sömu skýrslu kemur fram að tvöfalt fleiri slasast á rafhlaupahjóli en á venjulegu reiðhjóli. Notkun reiðhjóla er 4-5 sinnum meiri en á rafhlaupahjólum skv. síðustu könnun sem þýðir að áhættan við að vera á rafhlaupahjólum miðað við reiðhjól er sjö til tíföld.
Þá kemur í ljós að 23% alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum verða á svokölluðum „djammheimferðartíma“, sem er seint að kvöldi um helgar.
Einstaklingar eru óvarðari á rafhlaupahjólum en mörgum öðrum fararmátum. Hendur eru þétt upp að líkamanum og því þarf lítið til að missa jafnvægið. Að sama skapi er erfiðara að bera hendur fyrir sig. Þetta þýðir að andlitsmeiðsli eru algengari en í t.d. hjólreiðaslysum.
Því miður hafa mörg börn slasast á rafhlaupahjólum en þau hafa verið allt að 45% þeirra sem leituðu á bráðamóttöku vegna slíkra slysa.
Rafskútur eru umhverfisvænn og góður ferðamáti. Munum bara að gefa aldrei afslátt af örygginu, því við viljum alls ekki skúta upp á bak.
Nánari upplýsingar á uppabak.is