VÍS afhenti Slysavarnaskóla sjómanna öryggisbúnað í þrettánda sinn
Nýlega tók skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna á móti tíu nýjum flotvinnubúningum frá VÍS og er þetta jafnframt í þrettánda sinn sem félagið gefur skólanum slíkan öryggisbúnað.
Flotvinnubúningarnir, sem nemendur og kennarar skólans nota til að æfa björgun og meðferð björgunarbúnaðar, eru frá VÍS. Flotvinnubúningarnir eru nú orðnir 130 talsins — eða framlag sem jafngildir tæpum 40 milljónum króna.
Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS, er ánægð með samstarfið við Slysavarnaskóla sjómanna. „Forvarnir eru okkar hjartans mál og því erum við stolt af samstarfinu við Slysavarnaskóla sjómanna. Við viljum fækka slysum á sjó og erum þakklát fyrir að geta lagt okkar að mörkum til þess að auka öryggi sjómanna.“
Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, hefur unnið ötullega að öryggismálum sjómanna undanfarna áratugi. „Við erum þakklát fyrir stuðninginn því þetta styður með rausnarlegum hætti við skólann. Við viljum auka öryggi sjómanna og notkun flotvinnubúninga skiptir gríðarlegu máli — en dæmi eru um að slíkur búnaður hefur bjargað mannslífum á sjó. Sú staðreynd að allir sjómenn nemi við Slysavarnaskóla sjómanna — styður við öryggishegðun og öryggishugsun um borð. Þetta framlag VÍS skiptir okkur miklu máli, því við verðum að vera með nýja og heila flotvinnubúninga í kennslunni hverju sinni.“
Flestir nemendur Slysavarnaskóla sjómanna eru starfandi á fiskiskipum en samkvæmt lögum þurfa sjómenn bæði grunnmenntun og reglulega endurmenntun í öryggismálum og fer bókleg og verkleg kennsla, til dæmis í meðferð björgunarbúnaðar, fram um borð í skólaskipinu Sæbjörgu.
Þess ber að geta að á síðasta ári gaf VÍS Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) atvikaskráningarkerfið ATVIK-sjómenn til eignar og reksturs. Markmiðið með kerfinu er að fækka slysum á sjó — og var í fimm ár í þróun og hönnun hjá VÍS. Þrátt fyrir að banaslysum hafi fækkað á sjó, þá er enn talsvert langt í land að fækka slysum hjá sjómönnum. Að meðaltali eru 170 sjóslys tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands á hverju einasta ári. Hins vegar er það áhyggjuefni að einungis 30% þessara slysa eru tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa — sem einmitt hefur það hlutverk að rannsaka slysin, greina þau og koma með tillögur að forvörnum. Þetta var gjöf frá VÍS til íslenskra sjómanna — samfélaginu til heilla.