Þrjú spennandi verkefni hlutu styrk
Við erum stolt af því að fyrsta úthlutun Nýsköpunarsjóðs VÍS átti sér stað á dögunum.
Einu sinni á ári eru tíu milljónum úthlutað til stafrænna forvarna- og nýsköpunarverkefna. Þetta var fyrsta úthlutun sjóðsins og þrjú spennandi verkefni hlutu styrk að þessu sinni.
Stígamót hlaut 3,5 milljónir fyrir verkefnið sjúk ást en hugmyndin er netspjall fyrir ungt fólk þar sem ráðgjafar Stígamóta veita aðstoð, stuðning og upplýsingar um ýmislegt sem tengist samskiptum og ofbeldi.
Jákvæð karlmennska er hugarfóstur Þorsteins V. Einarssonar og hugmyndin er að vekja athygli á því hvers vegna jákvæð karlmennska styður við jafnrétti og hvernig skaðleg karlmennska bitnar á strákum og körlum. Verkefnið hlaut 3,5 milljóna króna styrk úr Nýsköpunarsjóði VÍS.
Að lokum fékk Reiðhjólaskrá 2,7 milljóna króna styrk úr Nýsköpunarsjóðnum en hugmyndin er að auðvelda tilkynningu stolinna hjóla og koma þeim svo til eigenda sinna.