Alvotech hlýtur forvarnaverðlaun VÍS 2022
Forvarnaráðstefnu VÍS 2022 lauk nú fyrir skemmstu en ráðstefnan er sú stærsta á sínu sviði þar sem öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana eru skoðuð frá öllum hliðum. Þrjú fyrirtæki þóttu standa upp úr í forvarnamálum á síðasta ári en það voru Alvotech, Þúsund Fjalir og Ístak.
Alvotech hlaut verðlaunin að þessu sinni en fyrirtækið er fyrirmyndarfyrirtæki í forvörnum og öryggismálum. Því fylgir mikil ábyrgð að framleiða lyf og því eru öryggismál algjört forgangsatriði. Helsta áskorun fyrirtækisins í öryggismálum er ör vöxtur, fjölgun starfsstöðva og koma nýrra starfsmanna af ólíkum þjóðernum.
Með góðri skipulagningu, fræðslu og áherslu á mikilvægi stafrænna lausna í öryggismálum starfsmanna, s.s. aðgengi að atvikaskráningu, öryggisblöðum, öryggisfræðslu og þjálfunarefni, er Alvotech vel að þessum verðlaunum komið.