Guðmundur nýr forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar
Guðmundur Ólafsson hefur verið ráðinn forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar hjá VÍS.
Hann býr yfir víðtækri þekkingu á atvinnulífinu ásamt fjölbreyttri stjórnendareynslu úr ólíkum geirum. Síðast starfaði hann hjá Arion banka þar sem hann hefur gegnt ýmsum stjórnendastörfum undanfarin 14 ár eða frá árinu 2007. Má þar helst nefna viðskipta- og vörustjóri Arion Premía, forstöðumaður fyrirtækjatorgs, forstöðumaður rekstrar og þjónustu á fyrirtækjasviði, svæðisstjóri á Norðausturlandi sem og útibússtjóri bankans á Egilsstöðum.
Guðmundur sat einnig í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, var framkvæmdastjóri Héraðs- og Austurlandsskóga og var sölu- og rekstrarstjóri auglýsingadeildar Norðurljósa sem nú heitir Vodafone.
Guðmundur er með MBA gráðu í stjórnun með áherslu á stafræn viðskipti frá Zigurat Innovation and Technology Business School og Universitat de Barcelona. Hann er einnig með próf í rekstrarfræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann er jafnframt markþjálfi (e. executive coaching) og með löggildingu í verðbréfamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík. Guðmundur hefur nú þegar hafið störf hjá VÍS.
Guðmundur Ólafsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar:
„Ég hef lengi fylgst með VÍS og þeirri spennandi vegferð sem félagið er á. Framtíðarsýn félagsins er að verða stafrænt þjónustufyrirtæki — og markmiðið er að fækka tjónum. Mér finnst þetta áhugaverð nálgun. Ég hlakka því til öflugs samstarfs við viðskiptavini félagsins — sem og að leggja mitt af mörkum í vegferðinni framundan.
Hafdís Hansdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu:
„Ég er spennt fyrir samstarfinu við Guðmund. Hann er með víðtæka stjórnendareynslu og hefur mikla þekkingu á atvinnulífinu. Við leggjum áherslu á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu — og vera í traustu viðskiptasambandi við þá. Öflugt forvarnarsamstarf er einnig mikilvægt til þess að fækka tjónum — sem er samfélaginu öllu til heilla. Ég trúi því að þekking og reynsla Guðmundar smellpassi í þau spennandi verkefni sem framundan eru.“