Birkir nýr framkvæmdastjóri hjá VÍS
Birkir Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi hjá VÍS.
Valgeir M. Baldursson, fráfarandi framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi, sagði starfi sínu lausu fyrir skömmu. Hann hefur ráðið sig sem forstjóri Terra.
Birkir mun sitja í framkvæmdastjórn félagsins og taka þannig þátt í stefnumótun þess. Hann mun bera ábyrgð á fjármálastjórn félagsins og að reksturinn sé í takt við áætlanir og markmið sem sett eru af stjórn og framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi ber einnig ábyrgð á því að hafa yfirsýn yfir áhættu vátrygginga hjá félaginu ─ og að sett séu markmið og mælikvarðar í tengslum við ábyrgan vátryggingarekstur. Þá ber hann ábyrgð á rekstri tjónadeilda félagsins. Auk þess mun Birkir sitja í fjárfestingaráði félagsins.
Birkir hefur yfir 15 ára reynslu á fjármálamörkuðum. Nú síðast starfaði hann hjá Birti Capital Partners, þar sem hann hefur verið meðeigandi, en fyrirtækið sinnir víðtækri fjármálaráðgjöf. Birkir starfaði í fimm ár sem framkvæmdastjóri fjármála, reksturs og þróunar hjá Valitor. Áður starfaði Birkir meðal annars í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og hjá Lögmönnum Höfðabakka. Birkir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur Birkir lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og hefur réttindi sem héraðsdómslögmaður.
Birkir hefur formlega störf hjá félaginu 1. júní næstkomandi.
Birkir Jóhannsson, framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi VÍS:
„Ég er stoltur af því að hefja störf hjá VÍS, sem ég tel vera framsæknasta tryggingafélagið á markaðnum. Framtíðarsýnin er að verða stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka. Mér finnst þetta metnaðarfull og spennandi framtíðarsýn og ég er fullur tilhlökkunar að leggja mitt á vogarskálarnar til þess að hún verði að veruleika.“
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:
„Á sama tíma og ég þakka Valgeiri kærlega fyrir hans hlut í uppbyggingu félagsins ─ sem og einkar ánægjulegt samstarf undanfarin ár ─ þá gleðst ég yfir því að fá Birki í okkar góða hóp. Ég hef miklar væntingar til Birkis og er þess fullviss að hann standi fullkomlega undir þeim. Víðtæk reynsla hans og menntun á eftir styrkja stjórnendahópinn enn frekar. Framundan eru spennandi verkefni hjá félaginu og ég hlakka til samstarfsins.“