Stuðla að sjálfbærri uppbyggingu
Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar var undirrituð í dag.
Í dag undirrituðu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og aðilar sem fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Forsætisráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) unnu að mótun hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.
Við hjá VÍS erum stolt af því að taka þátt í þessu framtaki enda viljum við hafa sjálfbærni að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Æðstu stjórnendur lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, innlánastofnana, vátryggingafélaga og fjárfestingarsjóða undirrituðu viljayfirlýsinguna rafrænt. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði hana fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar á ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í dag.
Einstakt framtak
Viljayfirlýsingin er einstakt framtak á fordæmalausum tímum. Víðtæk áhrif COVID-19 undirstrika mikilvægi þess að hafa sjálfbærni sem leiðarljós í því uppbyggingarstarfi sem framundan er. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að fjármagnið sé mikilvægt hreyfiafl í mótun atvinnulífs og atvinnusköpunar. Með því að nýta fjármagn á markvissan hátt er hægt að viðhalda sjálfbærri þróun, efla samkeppnishæfni þjóða og framtíð komandi kynslóða.
„Samfélagslega ábyrg hugsun og sjálfbær þróun er rauður þráður í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Við viljum að stjórnvöld, fyrirtæki og stofnanir axli ábyrgð og hafi uppbyggileg áhrif á samfélagið. Til þess þarf að innleiða sjálfbærni og samfélagsábyrgð í allan rekstur. Sú hugmyndafræði mun skapa ný tækifæri og verða aflgjafi margháttaðra framfara" sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.