Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 15.02.2023

Viðræður um sameiningu VÍS og Fossa fjárfestingarbanka

Vátryggingafélag Íslands (VÍS) og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hafa ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna. Félögin telja að fyrirhuguð sameining muni styrkja þau til sóknar á spennandi tímum á fjármálamarkaði.

Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fjárfestingarbanka fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu. Kaupin yrðu háð ýmsum skilyrðum, svo sem niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki eftirlitsstofnana og samþykki hluthafafundar VÍS.

Sameinað félag yrði öflugt fjármálafyrirtæki í sterkri stöðu til þess að nýta sér vaxtarmöguleika á markaði. Það myndi búa yfir fjárhagslegum styrk, afburða starfsfólki og sterkum innviðum fyrir framúrskarandi þjónustu á sviði trygginga, lánveitinga, miðlunar, fyrirtækjaráðgjafar, eignastýringar, sjóðastýringar og sérhæfðrar fjármálaþjónustu.

Í upphafi er lagt upp með að Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, og Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka, muni sameiginlega leiða félagið. Framtíðarskipulag samstæðu verður skoðað á næstu vikum, m.t.t. vaxtar, stjórnarhátta og hagræðingar.

Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS:

„Hröð samfélags- og tækniþróun með aukinni fjártækni, nýrri samkeppni og dreifileiðum á markaði hefur umbreytt samkeppnisumhverfi trygginga- og fjármálamarkaða. VÍS er í sterkri stöðu til að mæta og taka þátt í þessari þróun. Mikilvægt er að félagið sé skrefinu á undan og verði virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi hér landi, með áherslu á arðsaman vöxt og eignastýringu. Fyrsta skrefið í að víkka út starfsemi félagsins á fjármálamarkaði var stofnun SIV eignastýringar — en með sameiningu við Fossa fjárfestingarbanka eru tekin markviss skref í átt að framtíðarsýninni, sem er að verða spennandi valkostur á íslenskum fjármálamarkaði, ásamt því að auka og efla tekjustoðir félagsins.“

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka:

„Fossar fjárfestingarbanki hefur verið í sókn undanfarin ár og hefur þjónustað innlenda sem og erlenda fjárfesta á sviði markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og eignastýringar. Á síðasta ári fékk félagið fjárfestingarbankaleyfi sem fól í sér aukin tækifæri í þjónustu og umsvifum á fjármálamarkaði. Sameining VÍS og Fossa fjárfestingarbanka felur í sér spennandi tækifæri — enda eru félögin í ákjósanlegri stöðu til vaxtar á íslenskum fjármálamarkaði.“