Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 18.05.2021

„Spennandi framsetning getur gert gæfumuninn“

Nýverið efndu VÍS og Vinnuverndarskólinn til samkeppni meðal nemenda í tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú.

Aðalbjörn, Mantvilas, Darel og Halldór voru kampakátir þegar þeir tóku við verðlaunum frá VÍS fyrir leikinn Safety Works.

Tölvuleikirnir eru lokaverkefni 25 nemenda á námsbrautinni og er óhætt að segja mjög vel hafi tekist til. Forvarnir og fræðsla taka breytingum í takt við nútímann og vel við hæfi að miðla öryggismálum fyrir Vinnuskólann með tölvuleik enda markhópurinn þar 13-15 ára ungmenni.

„Við leggjum ríka áherslu á öflugar forvarnir í öllu okkar starfi og þess vegna erum við stolt af samstarfinu við Vinnuverndarskólann og námsbraut Keilis í tölvuleikjagerð. Tölvuleikir eru góður miðill fyrir vinnuvernd og öryggi ─ og við erum virkilega ánægð með útkomuna á samstarfinu" sagði Ágúst Mogensen, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS.

Hressleikinn var allsráðandi á verðlaunaafhendingunni en félagarnir Aðalbjörn, Mantvilas, Darel og Halldór báru sigur úr býtum með leikinn Safety Works. Allir nemendur fengu símahaldara frá VÍS og pítsuveislu í verðlaun. Því til viðbótar fengu sigurvegararnir gjafabréf frá Yay og blómvönd. 

Sigurvegarnir ásamt fulltrúum Vinnuverndarskólans,, leiðbeinandanum við Keili og Ágústi Mogensen frá VÍS.

Ágúst sagði jafnframt að mikil samkeppni væri um athygli og tíma viðskiptavina og því þyrfti að vanda vel framsetningu á öllu efni. „VÍS er á stafrænni vegferð og við ætlum að breyta því hvernig tryggingar virka. Ökuvísir er gott dæmi þetta en Ökuvísir er app sem hjálpar viðskiptavinum okkar að keyra betur.  Appið byggir á leikjavæðingu (e. gamification) og er skemmtilega framsett. Samkeppnin er hörð og því hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vanda vel til verka."

En af hverju verða sum öpp og vefsíður vinsælli en aðrar? „Svarið er ekki einfalt en við vitum samt að skemmtileg og spennandi framsetning getur gert gæfumuninn. Þau sem þróa og hanna tölvuleiki eru á heimavelli því þau kunna að halda athygli fólks. Þess vegna er sú þekking mjög eftirsótt“ bætti Ágúst við. Því er ljóst að þessir upprennandi tölvuleikjasmiðir eiga framtíðina fyrir sér.