Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 21.05.2021

Höfum lásinn öflugri en þjófinn!

Læsum hjólinu alltaf með öflugum lás en ekki lás sem lítið mál er að klippa í sundur.

Læsum hjólinu með öflugum lás.

Hjól hafa sjaldan verið vinsælli en nú, þar sem hægt er að slá margar flugur í einu höggi í hjólreiðamennskunni. Reiðhjól eru umhverfisvænn ferðamáti sem og góð samgöngutæki. Svo er hægt að njóta útivistar og hreyfa sig í leiðinni.  Verðmæti hjóla getur verið mikið og því miður er þjófnaður á hjólum alltof algengur. Því er ástæða til að minna á að læsa hjólunum alltaf tryggilega. Mikilvægt er að læsa þeim jafn utandyra og jafnvel innandyra eins og í sameiginlegri hjólageymslu.

En lás er ekki bara lás. Gæðin skiptir gríðarlega miklu máli. Einnig skiptir máli hvernig hjólinu er læst. Lásinn kemur þó ekki í veg fyrir að hjólinu sé stolið ─ en með vönduðum lás er það mun erfiðara. Lásar hafa öryggiseinkunn sem segir til um hversu auðvelt er að pikka lásinn upp eða klippa hann í sundur. Eftir því sem einkunnin er hærri, því öflugri er hann.  Það tekur einungis augnablik að klippa lás í sundur sem hefur lága öryggiseinkunn. Ekki er mælt með vírlási, heldur vönduðum og öflugum lási á borð við keðjulás eða svokallaðan U-lás eða tommustokkslás.  

Það getur verið til lítils að læsa dekkinu og stellinu saman þar sem einfalt er að kippa hjólinu með sér þannig. Alltaf að læsa hjólinu við eitthvað vegg- eða jarðfast ─ og í gegnum stellið, en ekki dekkið.