Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 10.05.2021

Forvarnarsamstarf til fyrirmyndar

VÍS og Strætó hafa ákveðið gefa öllum starfsmönnum Strætó Fitbit heilsuúr.

Frá vinstri; Reynir Leósson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar VÍS, Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, Jenny Johansson, vagnstjóri, Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, og Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó.

Þetta er hluti af öflugu forvarnarsamstarfi fyrirtækjanna — en Strætó tryggir hjá VÍS. Samtals eru þetta 280 heilsuúr en úrin eru öflugt tól til þess að fylgjast með heilsunni — og gefa góða vísbendingu um hvað megi bæta. Úrin sýna skrefin í hverjum göngutúr sem og kílómetrana sem voru farnir. Einnig er hægt er að fylgjast með lengd og gæðum svefns.

Setjum heilsuna í fyrsta sæti

Forvarnir eru mikilvægur þáttur í samstarfi fyrirtækjanna — og skýrt ákvæði er í samstarfssamningi fyrirtækjanna um að verja ákveðinni upphæð í forvarnir á hverju ári. Áherslurnar í forvarnarsamstarfinu hafa verið fjölbreyttar — en í ár er kastljósinu beint að streitu og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir hana. Skilaboðin í ár eru því skýr: „Hreyfum okkur saman í sólinni og setjum heilsuna í fyrsta sæti.“

Hugmyndin er að hvetja starfsfólk Strætó áfram í því að setja heilsuna í fyrsta sæti — og nýta tæknina til þess. Regluleg hreyfing og svefn eru nefnilega grunnur að góðri heilsu og góð leið til þess að vinna á móti streitu. „Aldrei hefur verið jafn mikilvægt að hlúa að heilsunni og nú, í miðjum alheimsfaraldri. Mælingar okkar hafa sýnt að streita hefur aukist og við viljum grípa strax í taumana. Við treystum því að heilsuúrin verði góð áminning fyrir starfsmenn okkar að huga að svefni og reglulegri hreyfingu“ sagði Sigríður Harðardóttir, sviðsstjóri mannauðs- og gæðasviðs Strætó.

Mikilvæg skilaboð til starfsmanna Strætó

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, er stoltur af samstarfinu „Ég er stoltur af samstarfinu við Strætó — og er ánægður með áherslur fyrirtækisins á forvarnir en Strætó hefur verið til mikillar fyrirmyndar í öryggis- og forvarnarmálum. Við ætlum að breyta því hvernig tryggingar virka og þetta er gott dæmi um öflugt samstarf þar sem áherslan er á forvarnir og að nýta tæknina til þess." Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, tekur undir þessi orð „Strætó og VÍS leggja mikla áherslu á öryggis- og forvarnarmál, bæði í orði og borði. Því hefur samstarfið verið virkilega ánægjulegt og til mikillar fyrirmyndar.“

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru mikilvægt leiðarljós hjá VÍS, ekki síst heimsmarkmið númer þrjú sem fjallar um heilsu og vellíðan. „Við leggjum því ríka áherslu á öflugar forvarnir í samstarfi við viðskiptavini okkar. Góð andleg og líkamleg heilsa er grunnurinn að góðri líðan — því er þetta mikilvæg skilaboð til starfsmanna Strætó" sagði Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, að lokum.


,