Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 04.11.2020

Um helmingur notar farsímann undir stýri

Alltof algengt er að ökumenn noti farsímann undir stýri, samkvæmt nýlegri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir VÍS.

Alltof algengt er að ökumenn noti farsímann undir stýri, samkvæmt nýlegri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi  fyrir VÍS. Þar kemur fram að 46% aðspurðra tala einhvern tímann í farsímann, án handfrjáls búnaðar, á meðan akstur stendur yfir. Athygli vekur að 56% aðspurðra á aldrinum 18-44 ára sögðust gera það sjaldan, stundum, oft eða alltaf.

36% þeirra, sem tóku þátt í könnuninni, skrifa einhvern tímann skilaboð í farsímann á meðan akstur stendur yfir ─ en töluverður munur var milli aldurshópa hvað þetta varðar. Þannig segjast 73% ökumanna á aldrinum 18-24 ára skrifa skilaboð sjaldan, stundum, oft eða alltaf. 53% þeirra á aldrinum 25-34 ára skrifa skilaboð sjaldan, stundum, oft eða alltaf ─ og 55% þeirra á aldrinum 35-44 ára gera það sjaldan, stundum, oft eða alltaf. 

Ljóst er að margir freista þess að lesa á símann undir stýri því 57% þeirra sem tóku þátt í könnunni viðurkenndu að gera það sjaldan, stundum, oft eða alltaf. Langflestir eru á aldrinum 18-24 ára eða 85%. Lítill munur er á aldurshópnum 25-34 ára og 35-44 ára ─ eða 78% og 74%.

Farsímanotkun stærsti áhættuþátturinn

Farsímanotkun undir stýri er því talsvert mikil hjá yngri aldurshópum, s.s. á aldrinum 18-24 ára. Þess ber að geta að notkun farsíma skerðir athygli við akstur. Farsímanotkun bitnar á skynjun ökumanna á umhverfinu og viðbragðstíma, t.d. að hemla eða beygja frá hættu. Samkvæmt rannsóknum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (e. WHO) eru þeir ökumenn, sem verða fyrir truflun vegna farsíma, fjórum sinnum líklegri til þess að valda umferðarslysum (þar á meðal aftanákeyrslu, útafakstri og árekstri).[1] Á vef Alþjóðaheilbrigðstofnunarinnar kemur fram að skert athygli við akstur vegna farsímanotkunar sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa á heimsvísu.[2]

Jákvætt viðhorf til Ökuvísis

Í könnuninni var einnig kannað viðhorf til Ökuvísis sem er ný tegund af tryggingum á Íslandi ─ en gert er ráð fyrir fyrstu útgáfu nýs apps fyrir lok þessa árs. 40% aðspurðra var jákvæður gagnvart slíkri tryggingu. Yngsti aldurshópurinn var enn jákvæðari eða 56%. Ökuvísir, sem er byltingarkennd nýjung hér á landi, hjálpar viðskiptavinum VÍS að lenda sjaldnar í slysum. Appið gefur ökumanninum einkunn ─ og farsímanotkun er einn þeirra fimm þátta sem myndar aksturseinkunnina. Tilgangurinn með Ökuvísi er að fækka bílslysum á Íslandi.

[1] https://www.who.int/publications/i/item/mobile-phone-use-a-growing-problem-of-driver-distraction

[1]https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/road-traffic-injuries