Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 11.03.2020

Sóttkví getur verið góð skemmtun

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir smit. Sóttkví er hluti af því. Í sóttkví fara þeir einstaklingar sem hafa mögulega smitast en eru ekki ennþá veikir þ.e. eru einkennalausir. Ef þú þarft að fara í sóttkví láttu þér ekki leiðast, njóttu frekar.

Af hverju sóttkví?

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir smit. Sóttkví er hluti af því. Í sóttkví fara þeir einstaklingar sem hafa mögulega smitast en eru ekki ennþá veikir þ.e. eru einkennalausir. Ekki er víst að allir á heimilinu þurfi að fara í sóttkví. Ef svo er, þá er mælst til þess að þeir sem eru útsettir fyrir smiti dvelji ekki á sama stað og þeir sem eru í sóttkví. Ein lausn á því er nýta sér sumarbústað. Ef ekki er hægt að skipta íbúum heimilisins, þá er mjög mikilvægt að takmarka snertingu, huga mjög vel að hreinlæti og hafa sér svefnrými fyrir þann sem er í sóttkví. Ef þú þarft að fara í sóttkví þá er mikilvægt að taka hana alvarlega. Við hvetjum þig samt til að líta ekki á sóttkví sem fangelsi heldur sem tíma fyrir sjálfan þig. Tíma til að gera þá hluti sem þig hefur alltaf langað til að gera en ekki gefið þér tíma í.

Höldum rútínu

Fjórtán dagar getur hljómað sem heil eilífð þegar þarf að hanga heima. En það þarf alls ekki að vera svo. Haltu rútínunni. Ekki rugla í svefninum. Farðu að sofa og vaknaðu á svipuðum tíma alla dagana. Kannski er þetta tíminn sem gefst til að lesa bókina Why We Sleep? Bókina sem hefur opnað augu almennings fyrir mikilvægi svefns á heilsu, vellíðan og árangur. Er málið að gera áætlun fyrir hvern dag? Hvað á að gera og jafnvel setja sér markmið? Þannig að þessir 14 daga líði ekki án þessi að eitthvað sitji eftir.

Vertu Wilson

Þrátt fyrir að vera í sóttkví, þá þurfum við ekki að hætta öllum samskiptum. Þú verður að hafa í huga að halda hæfilegri fjarlægð frá næsta manni, um 2-3 metra. Við munum mörg eftir Wilson í amerísku sjónvarpsþáttunum Home Improvement. Wilson og Tim Taylor voru aldrei í mikilli nánd við hvorn annan þar sem Wilson stóð í sínum garði og á bakvið grindverk. En það kom ekki í veg fyrir náin samskipti.

Pantaðu mat heim

Að vera í sóttkví þýðir að þú mátt ekki fara út að versla. Ekki einu sinni um miðja nótt. En sem betur fer hefur orðið mikil þróun í heimsendingum á mat. Pítsur hafa auðvitað verið sendar heim til okkar í áratugi en á síðustu misserum hefur verið lítið mál að fá fjölbreyttan mat sendan heim frá matvörubúðum og veitingastöðum. Við bíðum þó enn eftir heimsendum bragðaref.

Enga feimni

Að vera í sóttkví er ekkert feimnismál. Með því uppfyllum við skyldu okkar gagnvart samfélaginu sem kallar á varkárni. Þótt þú sért heilsuhraustur þýðir ekki að fólkið í kringum þig sé það. Segðu vinum og vandamönnum frá stöðunni, þau gætu boðist til þess að aðstoða þig við ýmis konar innkaup.

Vinnan

Margir geta unnið að heiman. Þá er tilvalið að koma sér upp góðri vinnuaðstöðu en ekki kúldrast uppí sófa með tölvuna og auka þar með líkur á stoðkerfisverkjum vegna rangra vinnustellinga.

Bíltúr

Þú mátt ekki vera í návist við aðra þegar þú ert í sóttkví. Nýttu tækifærið og farðu á rúntinn á fallega staði í nálægt höfuðborgarsvæðinu. Mundu, að þú mátt ekki taka upp farþega eða fara í bílalúgu. Þá er tilvalið að skoða íslenska náttúru eins og Þingvelli, Reykjanesið eða Hvalfjörðinn.

Líkamsrækt

Gymmið er ekki valkostur í sóttkví. Búðu til æfingaprógram heima fyrir sem þú ferð eftir daglega. Ekki gleyma leg day!

Hvað ef ég bý í fjölbýli?

Ef þú býrð í fjölbýli þarftu að taka tillit til nágranna þinna. Ef stigagangurinn er með Facebook hóp gæti verið sniðugt að láta vita að þú sért í sóttkví. Að þú munir kalla fram á gang ef þú vilt fara upp eða niður stigann til að komast út eða bara fara með ruslið. Vertu í hönskum þegar þú þarft að snerta hurðarhún eða handrið. Ef þú ert við það að mæta einhverjum í stigaganginum, þarftu að láta viðkomandi vita að þú sért í sóttkví. Þú skalt biðja viðkomandi um að fara til baka til að hleypa þér í gegn.

Göngutúr

Þér er alveg óhætt að fara í göngutúra, það er mikilvægt að fá frískt loft og hreyfa sig reglulega. Haltu bara tveggja metra fjarlægð frá öðrum. Óþarfi samt að vera með prik til að halda fólki í fjarlægð.

Eru verkefni heima sem hafa beðið lengi?
 • Eru fataskáparnir fullir af fötum sem eru aldrei notuð og geta nýst einhverjum öðrum?
 • Er krydd eða önnur matvara með síðasta söludegi frá tíunda áratugnum?
 • Er rétti tíminn til að henda málningu á einhverja veggi? Þú getur alltaf beðið einhvern að kaupa það sem þarf.
 • Það er merkilegt hvað ratar í geymsluna. Einn daginn er hún orðin yfirfull og enginn veit almennilega hvað hún geymir.
 • Er viðhald á heimilinu sem hægt er að sinna? Hvað með hurðina sem er alltaf skökk? En vaskurinn sem lekur?
 • Hvað með garðinn? Er eitthvað þar sem þú getur gert eða er snjór yfir öllu?
 • Eru ljósmyndirnar í einum graut? Í mesta lagi flokkaðar eftir ártölum. Eru allar myndirnar þarna, sama hvort þær séu góðar eða vondar?
Tíu góðar myndir til að horfa á ef þú ert í sóttkví

Að vera í sóttkví getur verið góð skemmtun. Þessar kvikmyndir geta stytt þér stundirnar milli þess sem þú þrífur herbergið í þriðja skiptið.

 1. Groundhog day. Bill Murrey fer á kostum í hlutverki veðurfréttamannsins Phil Connor sem upplifir sama daginn, aftur og aftur. 
 2. Home Alone. Hinn ungi Kevin McCallister þarf að hafa ofan af fyrir sér aleinn heima, fyrir tíma iPad, á meðan fjölskyldan fer í frí til Parísar.
 3. Panic Room. Jodie Foster dvelur í öryggisklefa. Óþarfi að panikka samt.
 4. The Lord of the Ring myndirnar. Ekki nema 11 ½ tíma . Þú hefur nægan tíma.
 5. Con Air. Myndin er æsispennandi og skartar engum öðrum en Nicolas Cage sem þarf að kljást við Cyrus the Virus í fangaflugi.
 6. Outbreak. Kvikmynd með Dustin Hoffman í aðalhlutverki. Pínu dramatísk.
 7. Groundhog Day. Bill Murrey fer á kostum í hlutverki veðurfréttamannsins Phil Connor sem upplifir sama daginn aftur og aftur. Mælum með daglegu áhorfi.
 8. Her. Joaquin Phoenix lærir að elska stýrikerfi og hafnar mannlegum samskiptum.
 9. Read Window. James Stewart hangir inni og fylgist með fólkinu á móti. Ekki láta grípa þig glóðvolgan við gónið.
 10. Bubble Boy. Svört kómedía með Jake Gyllenhaal í aðalhlutverki sem þarf að búa í sótthreinsuðu herbergi og ferðast um í kúlu.
Lesa góða bók

Margir eiga bækur sem hafa setið á hakanum, sem planið er að lesa „seinna“. Í sóttkví er gott tækifæri til að dusta rykið af þessum bókum því að „seinna“ er runnið upp. Lestrinum fylgja tveir kostir. Í fyrsta lagi, er lestur góð afþreying en jafnframt fylgir því oft áhugaverður og góður lærdómur. Ef þú ert ekki með bækur heima fyrir, þá er hægt að hlusta á hljóðbækur.

Tölvuleikir

Þeir sem spila tölvuleiki, eins og t.d. Playstation, vita hvernig tíminn getur flogið frá manni þegar maður er að spila. Ef þú hefur aldrei tíma til að spila, þá er tíminn réttur núna. Og fyrir þá sem hafa ekki spilað áður, hvernig væri að prófa?

Spil og leikir

Flestir eiga allskyns spil. Hvort sem það eru venjulegu gömlu spilin, borðspil, teningaspil, púsl eða annað. Finndu þessi spil og gefðu þér smá tíma í að kynnast þeim aftur. Og ef allt annað þrýtur, þá er alltaf hægt að byggja spilaturn.

Föndur

Á flestum heimilum eru til verkfæri til að föndra og á Youtube er fjöldinn allur af hugmyndum. Leitaðu að föndurhugmyndum (e. crafting) á Youtube og þú færð fjöldann allan af hugmyndum að föndri sem þú getur leikið þér með.

Okkar skilaboð eru ef við þurfum að vera í sóttkví, virðum hana og leitumst við að njóta. 


,