Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 02.10.2020

Góður frágangur er gulls ígildi

Allir vilja koma að sumarhúsi sínu í sama ásigkomulagi og þeir skildu við það.

Reynsla okkar af tjónum síðustu ára sýnir hversu mikilvægt er að vanda fráganginn eftir veru í sumarhúsi. Vetur konungur minnti hressilega á sig síðasta vetur og við skulum hafa það að leiðarljósi og vera eins vel undirbúin fyrir komandi vetur og hægt er.

Skrúfa fyrir neysluvatn

Tjón vegna vatnsleka verða oft alvarleg í sumarhúsum. Þau uppgötvast gjarnan ekki fyrr en eftir nokkra daga eða vikur og eru dæmi um altjón vegna þeirra. Algengt er að vatnstjónin verði út frá neysluvatni en tiltölulega auðvelt er að minnka líkur á slíkum tjónum.

  • Mikilvægt er að skrúfa fyrir inntak heita og kalda vatnsins og tæma vatn úr lögnum t.d. með því að skrúfa frá krana þar til vatnið hættir að renna. Ef þú lánar sumarhúsið þitt, er mikilvægt tryggja skilning á þessum frágangi.
  • Aftengja gaskúta t.d. frá grilli.
  • Fylgstu vel með lögnum í vaskaskápum og skildu skápa eftir opna, sér í lagi ef þeir eru á útveggjum, þá helst hærra hitastig inni í þeim.
  • Ef lokað kerfi er á húshitun, skaltu tryggja að frostlögur sé í lagi, t.d. ekki of gamall.

Lausir munir utandyra

Gott viðhald á sumarhúsinu og skjólveggjum minnkar líkur á foktjóni ásamt því að ganga frá lausum munum utandyra eins og útihúsgögnum, grilli, trampólíni og loki á heitum potti. Öryggiskerfi geta svo gefið góðar upplýsingar um stöðu mála þegar enginn er í bústaðnum t.d. með því að vera með bústaðinn í mynd, fá skilaboð í símann ef breyting verður á hita og raka, ef vatn fer að leka, ef eldur kviknar eða brotist er inn. Ef þú vilt frekari upplýsingar um forvarnir t.d. bruna og innbrot þá hvetjum við þig til að fara á vis.is.