Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 27.08.2020

Er skólataskan of þung?

Nú eru skólar landsins að fyllast af spenntum skólabörnum sem hlakka til að takast á við verkefni vetrarins. Mikilvægt er að velja skólatöskuna vel því börnin eru með hana á bakinu um 180 daga á ári, í að minnsta kosti 10 ár.

Gæði töskunnar og þyngd hennar getur haft mikið að segja um vellíðan barnanna þar sem of þung taska getur ýtt undir stoðkerfisvandamál og verki. Gott er að miða við að taskan sé ekki þyngri en 10-15% af líkamsþyngd barnsins.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.

  • Velja bakpoka frekar en hliðar- eða handtösku.
  • Tryggja að taskan sé af réttri stærð.
  • Hafa bak og bönd vel fóðruð.
  • Axlarbönd séu breið og stillanleg.
  • Mittis- og bringuól til staðar og stillanleg.
  • Bakpokinn sitji á mjöðmum en ekki allur á öxlum.
  • Taka til í töskuna fyrir hvern dag.
  • Raða þyngstu hlutunum við bak töskunnar.
  • Merkja töskuna, skóladótið og fatnaðinn.
  • Setja endurskin á töskuna.