Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 18.10.2018

Tryggingafélögin styrkja hjartadeild Landspítala um 18 milljónir

Þann 16. október sl. undirrituðu Samtök fjármálafyrirtækja og hjartadeild Landsspítala samning um að vátryggingafélögin Sjóvá, TM, VÍS og Vörður styrki hjartadeildina um 18 milljónir króna á næstu árum.

Þann 16. október sl. undirrituðu Samtök fjármálafyrirtækja og hjartadeild Landsspítala samning um að vátryggingafélögin Sjóvá, TM, VÍS og Vörður styrki hjartadeildina um 18 milljónir króna á næstu árum.

Styrk vátryggingafélaganna til hjartadeildar verður varið til að stórefla fræðslu og forvarnarstarf  á vegum hennar. Hjarta- og æðasjúkdómar eru helsta dánarorsök Íslendinga og því þykir vel við hæfi að vátryggingafélögin styðji við hjartadeild Landspítala með þessum hætti. 

Í fyrstu verður megináherslan á að styrkja svokallaðar annars stigs forvarnir, það er forvarnir hjá þeim sem hafa þegar greinst með kransæðasjúkdóm. Það felur meðal annars í sér reykleysismeðferð, meðferð við háþrýstingi, sykursýki og hækkuðu kólesteróli. Einnig verður skoðað hvernig best er að efla forvarnir hjá þeim sem enn hafa ekki greinst með hjartasjúkdóm. Í því tilliti kynni að vera áhugavert að beina sjónum fyrst og fremst að yngri kynslóðum. 

Samningurinn felur meðal annars í sér þróun vefsíðu með gagnvirku fræðsluefni um kransæðasjúkdóma. Styrkurinn verður einnig nýttur til umbóta á aðstöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra sem liggja á hjartadeild. Þá verður enn fremur lagt fé til eflingar starfsþróunar starfsfólks deildarinnar. 

„Vátryggingafélögin gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu þegar kemur að fræðslu og forvörnum. Forvarnir eru ákaflega mikilvægar þegar kemur að vörnum gegn sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma. Þar getur lífsstíll og mataræði til að mynda skipt miklu máli til þess að koma í veg fyrir slíka sjúkdóma. Samkomulag vátryggingafélaganna og hjartadeildar er því mikið fagnaðarefni og mun án efa skila miklum árangri þegar fram í sækir,“ segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. 

Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala segir „Þetta er mjög áhugavert samstarf og sýnir í hnotskurn hversu mikla áherslu við viljum leggja á forvarnastarf og heilsueflandi aðgerðir á komandi árum. Það skyldi nefnilega seint vanmeta jákvæð áhrif þátta eins og hreyfingar, holls mataræðis, kjörþyngdar og góðra svefnvenja á heilbrigði,“ bætir  

Bylgja Kærnested deildarstjóri hjartadeildar Landspítala segir að lokum: „Til viðbótar við fornvarnastarfið eru með þessum samningi sköpuð mikilvæg tækifæri til að bæta aðstöðu á deildinni svo og efla starfsþróun hjá þeim sem starfa á hjartadeild. Það er ekki síst mikilvægt þegar gríðarleg samkeppni er um heilbrigðisstarfsfólk, sérstaklega hjúkrunarfræðinga.“