Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 24.02.2016

Ársuppgjör 2015 Vátryggingafélag Íslands hf.

Samstæðuársreikningur félagsins fyrir árið 2015 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2016.

Samstæðuársreikningur félagsins fyrir árið 2015 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2016.

Verður ársreikningurinn lagður fyrir aðalfund þann 16. mars 2016 til staðfestingar.

  • Hagnaður af rekstri nam 2.076 m.kr. samanborið við 1.240 m.kr. hagnað 2014.
  • Hagnaður af rekstri án niðurfærslu óefnislegra eigna var 3.220 m.kr.
  • Samsett hlutfall var 101,5% en var 104,5% 2014.
  • Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu 4.076 m.kr. samanborið við 2.439 m.kr. 2014.
  • Ávöxtun fjáreigna nam 12,2% á árinu, en 7,1% árið 2014.
  • Óefnislegar eignir voru færðar niður alls um 1.144 m.kr. að teknu tilliti til skatta.
  • Arðsemi eigin fjár nam 11,3%, en hefði numið 17,5% ef ekki hefði komið til niðurfærslu óefnislegra eigna.

„Rekstur félagsins á árinu 2015 gekk vel og var hagnaður af rekstri tæpir 2,1 milljarðar króna. Ánægjulegt er að sjá að ágætur vöxtur var í innlendum iðgjöldum og hækkuðu bókfærð iðgjöld um 5,8% á árinu. Þrátt fyrir iðgjaldavöxt er vöxtur í tjónatíðni áhyggjuefni og það verður áfram áskorun að ná ásættanlegri afkomu af mörgum greinaflokkum vátrygginga. Samsett hlutfall á árinu 2015 var 101,5% en markmið félagsins er að vera með samsett hlutfall undir 100%.

Góð afkoma á árinu skýrist öðru fremur af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna. Fjárfestingastarfsemin gekk vel á árinu og er jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum. Ávöxtun skuldabréfa var góð og eins skilaði innlenda hlutabréfasafn félagsins góðri afkomu. Ávöxtun erlendra eigna félagsins olli vonbrigðum á síðasta ári.“

Í lok árs 2015 breytti félagið um reikningsskilaaðferð við mat á vátryggingaskuld í tengslum við innleiðingu á löggjöf um vátryggingastarfsemi, Solvency II sem taka mun gildi hér á landi snemma árs 2016. Upptaka nýrrar löggjafar þýðir meðal annars að áhætta í rekstri félagsins er nú mæld með öðrum hætti en áður. Þessi breyting hefur í för með sér áhrif á stöðu eigin fjár, vátryggingaskuldar og tekjuskatts og eru rekstrarreikningur ársins 2014 og efnahagsreikningar áranna 2013 og 2014 lagaðir að breytingunni. Vátryggingaskuld í ársbyrjun 2014 lækkar um 5.001 milljón króna og eigið fé hækkar um 3.694 milljónir króna vegna þessa.

Arðgreiðslutillaga stjórnar á árinu 2016 tekur mið af markmiði um gjaldþolshlutfall og nemur kr. 2,17 á hlut eða samtals um 5.000 m.kr.

Stjórn VÍS hefur sett félaginu markmið um áhættuvilja með vikmörkum sem auðveldar stýringu á heildaráhættu félagsins. Markmið um gjaldþolshlutfall er 1,50 með neðri mörkum 1.35.

Áætlað gjaldþolshlutfall eftir útgreiðslu arðs er 1,55.

Félagið er fjárhagslega sterkt með heildareignir í árslok 2015 44.874 m.kr. og skuldir 27.322 m.kr. Hlutfall auðseljanlegra eigna í eignasafni félagsins var 73,7% um áramótin, þar af eru 29,1% í ríkisskuldabréfum og handbæru fé. Félagið er því vel í stakk búið að mæta skuldbindingum sínum.

Í árslok var ákveðið að niðurfæra með einskiptis gjaldfærslu fjárfestingu félagsins í hugbúnaði, samtals að fjárhæð 1.144 m.kr. að teknu tilliti til skatta. Áhrif niðurfærslunnar á gjaldþol félagsins og arðgreiðslumöguleika eru engin. Virðisrýrnunin hefur ekki áhrif á fyrirhugaða nýtingu félagsins á hugbúnaðinum sem nú er áætlað að verði tekinn í notkun um mitt ár 2016. Félagið mun með þessari stöðluðu tryggingalausn styrkja grunninnviði sína og njóta framþróunar á kerfinu með stórum hópi annarra tryggingafélaga.

Félagið hefur tilkynnt um fyrirhugaða útgáfu víkjandi skuldabréfa að nafnverði 2.500 m.kr. en útgáfa skuldabréfanna er liður í endurskipulagningu á fjármagnsskipan félagsins og mun hún tilheyra eiginfjárþætti 2. Skuldabréfin verða gefin út 29. febrúar 2016.

Ágætur iðgjaldavöxtur var á árinu 2015 og reiknar félagið með að iðgjöld haldi áfram að vaxa á árinu 2016. Reiknað er með að samsett hlutfall á árinu 2016 verði lægra en það var á árinu 2015.

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla 3, 5. hæð, þann 25. febrúar n.k. kl. 8:30. Þar kynnir Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS afkomu félagsins og svarar spurningum. Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu VÍS:

 


,