Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 15.06.2016

70 björgunargallar á sjö árum

VÍS gefur Slysavarnaskóla sjómanna 10 björgunargalla.

Slysavarnaskóli sjómanna fékk nú í júní 10 björgunargalla að gjöf frá VÍS. Gallarnir voru afhentir í kjölfar sjómannadagsins. Þetta er í sjöunda sinn, sem fulltrúar VÍS færa skólanum tug björgunargalla að gjöf og því orðinn fastur árlegur liður.

„Gallarnir koma sér alltaf jafn vel og svarar tugur þeirra til meira en helmings þess sem við þurfum að endurnýja á hverju ári,“ segir Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskólans. „VÍS hefur nú gefið okkur 70 björgunargalla. Eins og gefur að skilja skiptir framlag sem þetta miklu máli fyrir starfsemi skólans. Sjómenn þurfa að koma á fimm ára fresti á námskeið hjá okkur til að viðhalda réttindum sínum og hæfni til sjósóknar. Vel á þriðja þúsund koma ár hvert, svo gallarnir eru í stöðugri notkun árið um kring.“

„Við leggjum mikla áherslu á öryggismál sjómanna og vinnum að öflugu forvarnarsamstarfi með nokkrum af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Það stendur okkur því nærri að tryggja að endurnýjun björgunargalla sé eins og þörfin krefur. Ætla má að allir sjómenn á Íslandsmiðum hafi sótt námskeið hjá Slysavarnaskólanum og fengið þjálfun í björgun úr sjó,“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS.

„Í samstarfi við Slysavarnaskólann hafa verið haldin sérstök öryggisnámskeið fyrir áhafnir skipa sem tryggð eru hjá VÍS. Þau fara fram um borð í hverju skipi og þar af leiðandi í umhverfi sem sjómennirnir gjörþekkja. Það kemur skipverjum oft á óvart hversu margt má færa til betri vegar, án mikillar fyrirhafnar, til að auka öryggi þeirra. Að því vinnum við markvisst bæði í stóru og smáu.“


,